Fótbolti

Amanda mætt aftur „heim“

Sindri Sverrisson skrifar
Amanda Andradóttir er mætt í búning Molde, félagsins sem pabbi hennar lék einnig með.
Amanda Andradóttir er mætt í búning Molde, félagsins sem pabbi hennar lék einnig með. Molde FK

Íslenska landsliðskonan Amanda Andradóttir er snúin aftur „heim“ til Molde, eftir að hafa kvatt norska bæinn þegar hún var fimm ára gömul.

Amanda hafði fengið samningi sínum við Twente rift rétt fyrir jól, eftir að hafa orðið tvöfaldur meistari með liðinu í Hollandi á síðustu leiktíð og leikið með liðinu í Meistaradeild Evrópu.

Þessi 22 ára, sókndjarfa knattspyrnukona er nú gengin í raðir Molde og komin aftur heim, eins og félagið orðar það á heimasíðu sinni.

Amanda er fædd í Noregi árið 2003 þegar pabbi hennar, Andri Sigþórsson, var um það bil að ljúka atvinnumannsferli sínum sem leikmaður Molde. Móðir hennar er hin norska Anna Ang­vik Jacobsen.

Amanda flutti fimm ára gömul til Íslands og stóð til boða að spila bæði fyrir Noreg og Ísland en valdi að lokum íslenska landsliðið sem hún hefur nú spilað 26 leiki fyrir og skorað tvö mörk.

„Ég hef alltaf verið stuðningsmaður Molde og er mjög ánægð í bænum. Mér líður eins og að ég sé að koma heim. Það er spennandi verkefni í gangi hérna sem ég hef mikinn áhuga á að taka þátt í,“ sagði Amanda. Hún skrifaði undir samning við Molde sem gildir út árið 2028.

Amanda hefur einnig leikið með Fortuna Hjörring og Nordsjælland í Danmörku, Vålerenga í Noregi, Kristianstad í Svíþjóð og Val á Íslandi en nú síðast Twente eins og fyrr segir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×