Innlent

Reyna aftur að fá Helga Bjart á bak við lás og slá

Árni Sæberg og Bjarki Sigurðsson skrifa
Karl Ingi Vilbergsson er saksóknari hjá embætti héraðssaksóknara.
Karl Ingi Vilbergsson er saksóknari hjá embætti héraðssaksóknara. Vísir/Vilhelm

Héraðssaksóknari hefur kært úrskurð Héraðsdóms Reykjaness, um að hafna kröfu um gæsluvarðhald yfir Helga Bjarti Þorvarðarsyni, sem ákærður hefur verið fyrir að nauðga tíu ára dreng, til Landsréttar.

Þetta staðfestir Karl Ingi Vilbergsson, settur varahéraðssaksóknari, í samtali við fréttastofu. Héraðsdómur Reykjaness hafnaði kröfu embættisins um gæsluvarðhald yfir Helga Bjarti á grundvelli almannahagsmuna á föstudag.

Lögregla hafði ekki farið fram á gæsluvarðhald en þegar Héraðssaksóknari ákvað að ákæra Helga Bjart var það gert. Til þess að sakborningur verði úrskurðaður í gæsluvarðhald á grundvelli almannahagsmuna þarf sterkur grunur um að hann hafi framið brot það sem hann er sakaður um að liggja fyrir. Svo virðist sem dómari við Héraðsdóm Reykjaness hafi ekki talið slíkan grun liggja fyrir.

Nú fellur það í skaut dómara við Landsrétt að ákveða hvort tilefni sé til þess að hneppa Helga Bjart í gæsluvarðhald. Landréttur má úrskurða í kærumáli að liðnum sólarhring frá kæru eða eftir að málsaðilar hafa skilað greinargerðum sínum til réttarins. Réttinum ber að kveða upp úrskurð svo fljótt sem kostur er. 

Foreldrarnir ósáttir með að hann gangi laus

Foreldrar drengsins sem Helgi er grunaður um að hafa brotið á ræddu málið við Vísi um helgina. Þau segjast hafa orðið fyrir miklum vonbrigðum þegar héraðsdómur hafnaði gæsluvarðhaldskröfunni. Þau upplifa sig í fangelsi á heimili sínu meðan Helgi gengur laus.

„Þetta er verknaður manneskju sem getur verið fullkomlega fær að gera slíkt aftur. Þetta er ekki eitthvað sem gerðist heldur eitthvað sem einhver gerði,“ sagði móðirin í sláandi viðtali sem lesa má í heild sinni hér fyrir neðan.


Tengdar fréttir

Enn til skoðunar hvort úrskurðurinn verði kærður

Embætti héraðssaksóknara ákveður í dag hvort úrskurði héraðsdóms um að hafna gæsluvarðhaldskröfu yfir manni sem grunaður er um kynferðisbrot gegn barni í Hafnarfirði verði áfrýjað til Landsréttar eða ekki. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×