Innlent

Hafnarfjarðarmálið: Spurning hvort ekki hafi verið litið til frá­sagnar for­eldra

Bjarki Sigurðsson skrifar
Margrét Valdimarsdóttir afbrotafræðingur segir sérstakt að gæsluvarðhaldskröfunni sé hafnað, þó það gerist reglulega að slíkar kröfur séu ekki samþykktar.
Margrét Valdimarsdóttir afbrotafræðingur segir sérstakt að gæsluvarðhaldskröfunni sé hafnað, þó það gerist reglulega að slíkar kröfur séu ekki samþykktar. Vísir/Lýður Valberg

Karlmaður sem er ákærður fyrir kynferðisbrot gegn tíu ára dreng neitar sök, en ber samt við minnisleysi. Afbrotafræðingur segir einkennilegt að gæsluvarðhaldsúrskurði yfir manninum sé hafnað.

Helgi Bjartur Þorvarðarson var um miðjan september handtekinn vegna gruns um kynferðisbrot gegn barni. Hann hefur nú verið ákærður fyrir að brjótast inn til fyrrverandi samstarfskonu sinnar og brjóta þar á tíu ára syni hennar. Það vakti athygli þegar lögregla krafðist ekki gæsluvarðhalds yfir honum eftir handtökuna en þegar hann var ákærður á föstudag krafðist héraðssaksóknari þess að hann yrði hnepptur í varðhald. Dómari varð ekki við þeirri beiðni. Úrskurðurinn hefur verið kærður til Landsréttar.

Ótti sem fylgir

Margrét Valdimarsdóttir afbrotafræðingur segir ákvörðun dómara koma á óvart, en hún bendi til þess að ekki allar upplýsingar um málið hafi ratað í fjölmiðla. Ýmis skilyrði þurfi að uppfylla, til að mynda þurfi að liggja fyrir rökstuddur grunur um sekt, rannsóknarhagsmunir vera í húfi og hætta stafi af manninum.

„Miðað við frásagnir foreldra í fjölmiðlum veltir maður fyrir sér hvort það hafi ekki verið metið að það er ákveðin hætta, eða ótti, sem fylgir því fyrir þennan þolanda að maðurinn sé laus og í sama nágrenni,“ segir Margrét. 

Skipti ekki máli hvort hann sé drukkinn eða ekki

Helgi Bjartur sendi frá sér yfirlýsingu vegna málsins í morgun. Þar segist hann muna lítið eftir kvöldinu. Hann hafi fallið á áfengisbindindi þetta kvöld. Þótt hann muni ekkert séu ásakanirnar óskiljanlegar. Þær hafi sett líf hans og fjölskyldu hans í rúst. Hann sé ekki sekur um kynferðisbrot gegn drengnum. Hann óskar eftir því að málsmeðferð fái sinn lögbundna farveg. Þetta sé martröð sem hann muni bera með sér alla ævi.

„Það svo sem kemur ekki mikið fram í yfirlýsingunni, annað en að hann hafi verið mjög drukkinn. En fólk er ábyrgt fyrir sínum gjörðum, sama hvort það sé undir áhrifum áfengis eða ekki,“ segir Margrét.

Foreldrar drengsins segjast í samtali við Heimildina afar ósátt með Helga Bjart. Hann ætti að axla ábyrgð í stað þess að halda því fram að drengurinn sé að ljúga. Þau vilji að hann verði úrskurðaður í gæsluvarðhald, en á meðan hann gangi laus geti þau ekki náð bata og lifað eðlilegu lífi eftir hræðilegt áfall.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×