Innlent

Á skil­orði eftir að hafa kýlt, skallað og bitið konu sína

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Dómur var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur við Lækjartorg.
Dómur var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur við Lækjartorg. Vísir/Vilhelm

Karlmaður á höfuðborgarsvæðinu hefur verið dæmdur í sex mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir endurtekin ofbeldisbrot í nánu sambandi gagnvart þáverandi sambýliskonu sinni. Maðurinn játaði brot sín.

Árásirnar tvær áttu sér stað í júní 2023 og október 2024. Í þeirri fyrri tók hann konuna kverkataki og þrengdi að öndunarvegi hennar þannig að hún átti erfitt með andardrátt og hlaut mar á hálsi.

Í síðari árásinni kýldi hann konuna með krepptum hnefa í höfuðið, skallaði í andlitið og beit hana í framhandlegg. Hlaut konan mar og rispur á höfði og andliti, kúlu á enni, bitfar og mar á handlegg.

Maðurinn játaði brot sín skýlaust. Hann átti ekki sögu að baki fyrir ofbeldisbrot. Þá var litið til þess að um var að ræða endurtekna og alvarlega háttsemi gagnvart nákomnum aðila í langan tíma þar sem lífi hennar og heilsu var ógnað.

Brotin voru framin á sameiginlegu heimili þar sem konan hefði með réttu átt að njóta öryggis og verndar. Þá braut maðurinn gegn trúnaði og trausti með háttsemi sinni auk þess sem brotavilji og ásetningur virðist hafa verið einbeittur. Afleiðingar ofbeldisbrota gegn nákomnum séu miklar og kunni að koma fram á lengri tíma.

Var maðurinn dæmdur í skilorðsbundið sex mánaða fangelsi sem þýðir að hann þarf ekki að afplána refsingu nema hann brjóti af sér á næstu tveimur árum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×