Skoðun

Og ári síðar er málið enn „í ferli“

Eva Hauksdóttir skrifar

Í íslenskri stjórnsýslu gildir svokölluð málshraðaregla. Hún felur það í sér að ákvörðun skuli tekin „svo fljótt sem unnt er“. Og hversu fljótt er svo unnt að afgreiða mál? Oft er sá tími langt frá því að vera nálægt þeim skilningi sem borgarinn sem bíður niðurstöðu leggur í orðið „fljótt“. Málshraði í íslenskri stjórnsýslu er efni í heila bók en hér verða aðeins nefnd örfá dæmi.

Fjölskyldusvið sýslumanns

Frá því að sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu berst beiðni um breytingu á umgengni eða forsjá og lögheimili, líða allt að átta mánuðir frá því að byrjað er að vinna í málinu. Eftir hina löngu bið fer fram sáttameðferð sem gefur aðilum færi á að tefja málið um margar vikur. Þegar sáttamaður er orðinn sannfærður um að sátt náist ekki er gefið út vottorð um árangurslausa sáttameðferð og málinu vísað frá sýslumanni. Þá fyrst er hægt að höfða dómsmál. Algengt er að allan þennan biðtíma séu börn í óþolandi aðstöðu þar sem engin regla er á umgengni við foreldra.

Það tekur sýslumann einnig 6-8 mánuði að afgreiða beiðni um meðlagsúrskurð, og þá á Tryggingastofnun eftir að setja greiðslur "í ferli".

Lögreglan

Frá því að lögregla fær mál til rannsóknar líða oft margir mánuðir þar til teknar eru lögregluskýrslur af sakborningi brotaþolum og vitnum. Afleiðingin er sú að farið er að fyrnast yfir minni skýrslugjafa, auk þess sem líklegt er að sakborningur hafi íhugað vandlega hvað hann ætlar að segja og að vitni hafi talað saman og haft áhrif hvert á annað. Það þarf ekki að vera með ráðum gert. Minningar breytast þegar við heyrum útgáfu annarra, án þess að við áttum okkur á því. Lögreglan veit það.

Eftir að lögreglurannsókn lýkur geta svo liðið mánuðir og jafnvel ár þar til mál er fellt niður eða gefin út ákæra. Þetta á líka við þegar sakborningar og/eða brotaþolar eru börn eða með með þroskafrávik. Drátturinn hefur þau áhrif að öll fjölskylda sakbornings (og brotaþola þegar það á við) býr mánuðum eða árum saman við andlegt álag og kvíða sem hægt væri að komast hjá. Stundum verður töfin til þess að sakborningur fær vægari refsingu. Hún verður ekki til þess að brotaþoli fái hærri bætur.

Útlendingayfirvöld

Mikið hefur verið um það rætt hvað hælisleitendur séu mikil byrði á ríkissjóði. Og hverjum ætli það sé svo að kenna?

Málsmeðferðartími Útlendingastofnunar í málum sem ekki sæta forgangsmeðferð er oft 9-12 mánuðir. Eftir það má reikna með mörgum mánuðum þar til Kærunefnd útlendingamála staðfestir úrskurðinn eða vísar honum aftur til Útlendingastofnunar. Á vefsvæði sem varðar málsmeðferðartíma kærunefndarinnar er að finna þær upplýsingar að nefndin sé gífurlega vandvirk en ekki er minnst orði á fjölda daga sem mál eru til meðferðar. Ég get þó upplýst að oft líða meira en sex mánuðir frá því að ákvörðun Útlendingastofnunar liggur fyrir og þar til kærunefndin úrskurðar. Á meðan bíður umsækjandinn í örvæntingu, oft fjarri fjölskyldu sinni.

Eftir að brottvísun er staðfest geta svo liðið margar vikur eða jafnvel mánuðir þar til brottvísun er framfylgt eða umsækjandinn fær aðstoð við "sjálfviljuga heimför". Allan þennan tíma er hælisleitandinn á framfæri Íslenska ríkisins. Í flestum tilvikum er þetta vinnufært fólk sem vill vinna en kerfið býður ekki upp á það. Dæmi eru um fólki, sem ekki er talið flóttafólk í skilningi laga, hafi verið veitt dvalarleyfi af mannúðarástæðum vegna þess að það hefur þurft að bíða í 18 mánuði eða lengur eftir endanlegri niðurstöðu.

Ýmis önnur stjórnvöld

Ekki er þó svo að skilja að útlendingayfirvöld séu neitt seinvirkari en önnur stjórnvöld. Málsmeðferðartími úrskurðar- og kærunefnda er sjaldan skemmri en þrír mánuðir og oft lengri en hálft ár. Stundum gilda reglur um lengd málsmeðferðartíma en ef þær eru ekki virtar, þá hefur það engar afleiðingar. Í versta falli rannsakar Umboðsmaður Alþingis málið en það þýðir ekki að ástandið skáni, enda enginn sem sætir ábyrgð. Það getur líka tekið marga mánuði að fá leyfi fyrir ýmisskonar atvinnurekstri. Landlæknir á þó sennilega metið í lengd málsmeðferðar (eða það vona ég) en það tekur embætið allt að fjögur ár að afgreiða kvörtun vegna mistaka eða vanrækslu við veitingu heilbrigðisþjónusta. Ef niðurstaðan er sú að kvörtunin eigi við rök að styðjast taka við samningaumleitanir og jafnvel skaðabótamál fyrir dómi. Þolandinn er ellidauður áður en endanleg niðurstaða liggur fyrir.

Engin úrræði

Umboðsmaður Alþingis hefur það hlutverk að veita stjórnvöldum aðhald. Það þjónar þó takmörkuðum tilgangi að kvarta vegna óhóflegs málsmeðferðartíma til Umboðsmanns Alþingis. Ef mál er ennþá til afgreiðslu þegar kvörtun berst sendir umboðsmaður stjórnvaldinu fyrirspurn um stöðu máls en tekur enga afstöðu til þess hvort það hafi tafist óhóflega. Og þegar málinu er lokið hefur kvartandinn venjulega enga hagsmuni af því lengur að fá staðfestingu Umboðsmanns á því að brotið hafi verið gegn málshraðareglu.

Auk þess sem málshraðaregla er almennt virt að vettugi í íslenskri stjórnsýslu gengur misvel, og oftar en ekki illa, að fá svör um það hvernær stjórnvaldið reikni með að skila niðurstöðu. Svör við fyrirspurnum um stöðu mála eru gjarnan "málið er í ferli", "umsóknin er í vinnslu", "það er ekki komið að afgreiðslu erindis" eða eitthvað álíka upplýsandi. Ef skýringar á drættinum eru á annað borð gefnar, eru það afsakanir eins og "vegna anna hjá embættinu …", "vegna mikils málafjölda hjá nefndinni …", "vegna manneklu hjá stofnuninni …", "vegna sumarfría starfsfólks …". Oft eru fyrirspurnir einfaldlega hunsaðar, enda hefur það engar afleiðingar þótt stjórnvöld sýni borgurunum lítilsvirðingu.

Af hverju er ekki allt brjálað út af þessu? Af hverju er ekki einu sinni nein umræða um þetta á Alþingi, í sveitarstjórnum og í samfélaginu? Og af hverju heyrast ráðherrar aldrei tala um þessi lögbrot stofnana sem heyra undir þá, hvað þá að þeir geri eitthvað í málunum?

Höfundur er lögmaður. 




Skoðun

Sjá meira


×