Atvinnulíf

Vá en æðis­legt: Fundurinn fellur niður í dag!

Rakel Sveinsdóttir skrifar
Það er engin tilviljun að við upplifum oft létti þegar fundir falla niður. Því þetta er líffræðilegt viðbragð líkamans, sem slekkur á streitukerfi sem við ósjálfrátt kveikjum á þegar fundir eru boðaðir.
Það er engin tilviljun að við upplifum oft létti þegar fundir falla niður. Því þetta er líffræðilegt viðbragð líkamans, sem slekkur á streitukerfi sem við ósjálfrátt kveikjum á þegar fundir eru boðaðir. Vísir/Getty

Þetta gerist á sekúndubroti. En vá hvað það kemur góð tilfinning með þessu. Svona gerist þetta oftast:

Í dagatalinu er skráður fundur kl. 10.30. Svo sem enginn sérstakur fundur eða erfiður eða neitt. Bara fundur.

Allt í einu dettur ég inn í pósthólfið:

„Meeting canceled.“

Já, fundurinn fellur niður. Skiptir ekki máli hvers vegna.

Það sem skiptir máli er hins vegar þetta:

Þú last skilaboðin „Meeting canceled“ og svo… upplifðir þú létti!

Axlarvöðvarnir slakna. Andardrátturinn verður dýpri. Þú brosir – jafnvel aðeins of mikið miðað við að „ekkert stórt“ hafi gerst.

Flestir kannast við þessa tilfinningu og nú er hún farin að vekja athygli fræðimanna.

Því þessi léttir sem fólk er að upplifa er engin tilviljun, heldur líffræðilegur.

Í grein á RALI Online er rætt við sálfræðing sem útskýrir fyrir okkur, hvers vegna við erum að upplifa þennan létti.

Skýringin er þessi:

Fundir kveikja á streitukerfinu okkar. Þótt þeir séu litlir, stuttir, saklausir. 

Það er vegna þess að heilinn bregst ekki bara við því sem er að gerast núna, heldur líka því sem mögulega gæti gerst.

Og þar sem fundir eru boðaðir með fyrirvara, veit heilinn að við þurfum að:

  • mæta
  • hlusta
  • mögulega að tala
  • og mögulega verðum við metin af öðru fólki fyrir það hvernig við erum á fundinum (félagslegt álag).

Þegar við fáum síðan upplýsingar um að það verður enginn fundur, slekkur líkaminn á streitukerfinu og þá finnum við léttinn.

Ágætis dæmi til samanburðar er til dæmis þegar við höldum að við séum búin að týna símanum eða lyklunum okkar. Þá kviknar á streitukerfinu, sem líkaminn slekkur síðan á aftur þegar við finnum dótið okkar og við upplifum létti.

Annað dæmi getur verið þegar við eigum von á því að samtal geti orðið erfitt. Þá kveikir streitukerfið á sér og er á alveg þar til við eigum samtalið þar sem kemur í ljós að það er ekkert erfitt. Streitukerfið slekkur á sér og við upplifum létti.

En það er líka svo áhugavert að velta fyrir sér: Hvað er þessi léttir samt að segja okkur? Hvað getum við lært af þessu?

Því það að við séum að upplifa létti og ánægju yfir því að fundur falli niður, getur verið vísbending um að fundinn og jafnvel fundarmenninguna, megi endurskoða.

Dæmi:

Við getum upplifað létti þegar fundur fellur niður sem hafði óljósan tilgang, hefði verið mjög langur, er haldinn af vana frekar en þörf, skapar félagslegar aðstæður sem okkur líður ekki vel í og svo framvegis. 

Allt ofangreint er því hið fínasta tilefni fyrir vinnustaði til að velta fyrir sér hvernig fundarmenningin er innan þeirra vinnustaða. Sem er alltaf hollt og gott að gera reglulega.


Tengdar fréttir

Fólkið sem allir kannast við af fundum

Það kannast allir við þessar týpur því á fundum er það oft sama starfsfólkið sem talar of mikið, of lengi eða um ekki neitt. Það sama gildir um þá sem þegja alltaf og eru uppteknari í símanum en að fylgjast með fundinum.

Að halda fókus á ráðstefnum og fundum

Hvort sem viðburður er haldinn rafrænt eða ekki, kannast margir við að missa einbeitinguna á ráðstefnum, málþingum, námskeiðum eða fundum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×