Innlent

Taki á­sökunum al­var­lega og skipi Sig­nýju til bráða­birgða

Eiður Þór Árnason skrifar
Signý Magnúsdóttir hefur áður starfað sem fjármálastjóri Sýnar en hún varð meðeigandi Deloitte á Íslandi árið 2014.
Signý Magnúsdóttir hefur áður starfað sem fjármálastjóri Sýnar en hún varð meðeigandi Deloitte á Íslandi árið 2014. Sýn

Stjórnendur Deloitte á Íslandi segjast líta ásakanir á hendur Þorsteini Pétri Guðjónssyni, forstjóra fyrirtækisins, alvarlegum augum og hefur stjórn félagsins skipað Signýju Magnúsdóttur forstjóra til bráðabirgða.

Greint var frá því í dag að héraðssaksóknari hafi gefið út ákæru á hendur Þorsteini sem er sakaður um hafa brotið kynferðislega á ungri konu vorið 2023. Brotið getur varðað allt að tveggja ára fangelsi.

Þorsteinn segir ásakanirnar eiga sér enga stoð í raunveruleikanum og að hann hafi kært brotaþola fyrir rangar sakargiftir. Hann gaf jafnframt út að hann muni stíga til hliðar sem forstjóri „á meðan þetta mál er til lykta leitt.“

„Við lítum þessar ásakanir mjög alvarlegum augum og höfum komist að samkomulagi við Þorstein Pétur um að hann stígi til hliðar. Við munum ekki tjá okkur frekar um málið á meðan það er til meðferðar hjá dómstólum,“ segir í yfirlýsingu Deloitte á Íslandi til fjölmiðla.

„Við munum hér eftir sem hingað til leggja áherslu á að veita viðskiptavinum okkar framúrskarandi þjónustu og hugsa vel um fólkið okkar.“

Hafi ekki stoppað fyrr en vinkona brotaþola reif í hann

Málið verður tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjaness þann 20. janúar næstkomandi. Atvikið sem um ræðir átti sér stað á Hótel Rangá í maí árið 2023. Samkvæmt heimildum voru Þorsteinn og brotaþoli gestkomandi á hótelinu í sitt hvoru lagi og þekktust ekki.

Í ákæru er honum gefið að sök að hafa kysst brotaþola gegn hennar vilja. Hann hafi skömmu síðar hlaupið að henni, ýtt henni upp við vegg og sett tunguna upp í munn hennar. Þá hafi hann sett höndina inn fyrir nærbuxur konunnar og káfað á kynfærum hennar innanklæða.

Þá segir að ákærði hafi ekki látið af háttseminni fyrr en vinkona brotaþola kom að þeim, reif í jakka Þorsteins og öskraði á hann.

Þorsteinn Pétur hefur verið forstjóri Deloitte frá árinu 2019 og er einn eigenda fyrirtækisins. Deloitte er eitt stærsta fyrirtæki landsins á sviði endurskoðunar og ráðgjafar og í fyrra störfuðu þar hátt í fjögur hundruð manns. Þá hefur Deloitte meðal annars sinnt fjölda verkefna fyrir hönd íslenska ríkisins.


Tengdar fréttir

Forstjóri Deloitte: Sver af sér allar sakir en stígur til hliðar

Þorsteinn Pétur Guðjónsson, forstjóri Deloitte, segir það hafa verið honum mikið áfall að ákært hafi verið vegna ásakana á hendur honum um kynferðisbrot. Ásakanirnar eigi sér enga stoð í raunveruleikanum og hann hafi kært brotaþola fyrir rangar sakargiftir. Hann hefur þó stigið til hliðar sem forstjóri.

Forstjóri Deloitte ákærður fyrir kynferðisbrot

Þorsteinn Pétur Guðjónsson, forstjóri Deloitte á Íslandi, hefur verið ákærður fyrir kynferðisbrot. Honum er gefið að sök að hafa veist að ungri konu á hóteli á Suðurlandi vorið 2023. Brotið getur varðað allt að tveggja ára fangelsi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×