Enski boltinn

„Carrick gaf stuðnings­mönnum „smjör­þefinn“ af Ferguson-tímanum“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Michael Carrick fagnar sigri Manchester United með Matheus Cunha sem kom inn á bekknum og lagði upp seinna markið í sigrinum á Manchester City.
Michael Carrick fagnar sigri Manchester United með Matheus Cunha sem kom inn á bekknum og lagði upp seinna markið í sigrinum á Manchester City. Getty/Carl Recine

Manchester United var öðrum fremur lið helgarinnar í ensku úrvalsdeildinni eftir frábæran og sannfærandi sigur á nágrönnunum í Manchester City í fyrsta leik sínum undir stjórn Michael Carrick.

Manchester United-goðsögnin Wayne Rooney var einn af þeim sem hrifust af frammistöðunni og hann sagði úr að yngri stuðningsmenn Manchester United hafi þarna fengið smjörþefinn af því hvernig hlutirnir voru undir stjórn Sir Alex Fergusons.

Hinn 44 ára gamli Carrick var ráðinn bráðabirgðastjóri United á þriðjudag til loka tímabilsins og tók við af Ruben Amorim sem var rekinn. Mörk frá Bryan Mbeumo og Patrick Dorgu tryggðu verðskuldaðan sigur á City-liði Pep Guardiola á laugardag á ærandi Old Trafford.

Rooney, sem vann fimm ensku deildartitla ásamt Carrick hjá United, telur að mikill munur hafi verið á stuðningsmönnum heimaliðsins undir stjórn fyrrverandi liðsfélaga síns.

Sáuð þið muninn á stemningunni á vellinum?

„Ég var ekki á vellinum, ég var í hljóðveri BBC, en sáuð þið muninn á stemningunni á vellinum? Jafnvel þegar hann [Michael Carrick] gekk út fyrir leikinn og reyndi að peppa áhorfendur upp,“ sagði Rooney í nýjasta þætti hlaðvarpsins The Wayne Rooney Show á BBC.

„Ég held að stuðningsmennirnir hafi fundið fyrir einhverju í gær. Carrick gaf stuðningsmönnum smjörþefinn af Ferguson-tímanum. Þeir fengu að sjá brot af því hvernig hlutirnir voru undir stjórn Sir Alex Ferguson. Sumir af yngri stuðningsmönnunum hafa gengið í gegnum hræðilega tíma síðustu 10, 13 ár, eiginlega síðan Fergie fór,“ sagði Wayne Rooney.

Þeir hafa ekki séð lið spila svona vel

„Þeir hafa ekki séð lið spila svona vel. Ég hef verið hluti af sumum þessara liða líka. Ég hef spilað í sumum þeirra. Þeir hafa ekki séð lið spila svona vel, með þessa orku og þessa trú á baráttunni og að vera hugrakkir með boltann, en líka að vera seigir og erfiðir viðureignar,“ sagði Rooney.

„Stuðningsmennirnir fundu fyrir því í gær og vonandi er þetta forsmekkurinn að því sem við eigum von á í næstu sextán leikjum,“ sagði Rooney.

Rooney sagði að þetta væri besta frammistaðan sem hann hefði séð frá United í langan tíma.

„Ég held að það sem Michael gerði með liðið hafi ekki verið neitt flókið. Þetta var einföld breyting á leikkerfinu,“ sagði fyrrverandi framherji Englands.

Hressandi að sjá leikmennina gera það

„Ég held að allir hafi verið að tala mikið um þriggja manna varnarlínu Ruben Amorim og hvernig hún hentaði Manchester United líka. Svo hann breytti því, en ef þú ferð aftur í síðasta hlaðvarp sem við gerðum þar sem ég talaði um hvað United þyrfti að gera, þá er það í raun einfalt, það er að hlaupa og leggja hart að sér. Það var svo hressandi að sjá leikmennina gera það.“

Amorim var rekinn 5. janúar og Rooney sagði að sigur United á City væri „eins og nótt og dagur miðað við það sem við höfum verið að sjá“ undir stjórn Portúgalans.

Þetta var eins og nótt og dagur

Rooney bætti við: „Þú finnur það líka frá stuðningsmönnunum, muninn á orkunni í liðinu, sjálfstraustinu, trúnni, yfirveguninni með boltann á réttum augnablikum. Þetta var eins og nótt og dagur miðað við það sem við höfum verið að sjá, svo þetta var svo góður dagur. Þetta minnti mig á, þegar við tölum um DNA Man United, þá var þetta það,“ sagði Rooney.

„Leggðu hart að þér, hlauptu fyrir liðsfélaga þinn, komdu þér aftur í stöðu, vertu erfiður viðureignar – [og svo] þegar þú færð tækifæri, hlauptu fram á við,“ sagði Rooney.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×