Innlent

Sjö til­kynningar um heimilis­of­beldi að jafnaði á dag

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Tilkynningum um heimilisofbeldi hefur fjölgað nokkuð á undanförnum árum. Myndin er úr safni og er sviðsett.
Tilkynningum um heimilisofbeldi hefur fjölgað nokkuð á undanförnum árum. Myndin er úr safni og er sviðsett. Vísir/Getty

Tilkynningum til lögreglu vegna heimilisofbeldis fjölgaði um tvö prósent í fyrra samanborið við síðustu þrjú ár á undan en alls fékk lögregla 2.485 slíkar tilkynningar á síðasta ári. Það jafngildir að meðaltali tæplega sjö tilkynningum á dag en flestar tilkynningar um heimilisofbeldi bárust í desember, eða 138 tilkynningar. Tilkynningum um ofbeldi foreldra gegn börnum hefur fjölgað einna mest á milli ára. Innan við þriðjungur þolenda heimilisofbeldis segist hafa tilkynnt um ofbeldið til lögreglu.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá ríkislögreglustjóra í morgun þar sem vísað er í skýrslu þar sem tekin er saman tölfræði yfir tilkynningar til lögreglu um heimilisofbeldi og ágreining á milli skyldra og tengdra aðila.

„Áberandi er aukning tilvika sem flokkast undir endurtekna eða alvarlega hótun gegn lífi og heilsu samkvæmt 218. gr. b almennra hegningarlaga. Slík tilvik voru 156 árið 2025 miðað við 116 árið 2024, sem er tæplega 35% aukning. Beiðnir um nálgunarbann voru 95, og fjölgaði þeim um 16% miðað við árið 2024. Ef borið er saman við meðaltal síðustu þriggja ára á undan fækkaði beiðnum um 5%,” segir meðal annars í tilkynningunni.

Flest mál á milli para og meðalgerandinn er karlmaður á fertugsaldri

Þá hefur þeim tilfellum einnig farið fjölgandi þar sem foreldri beitir ofbeldi gegn barni sínu. Slíkum málum fjölgaði um 13% á milli ára, úr 142 árið 2024 og í 160 í fyrra.

„Í heildina voru karlar grunaðir um að vera árásaraðilar í tæplega 74% allra heimilisofbeldismála og konur voru 65% árásarþola. Meðalaldur árásaraðila var 36,6 ár og meðalaldur árásarþola var 33,5 ár. Þegar aldursdreifing er skoðuð kemur í ljós að 26% árásarþola voru yngri en 26 ára árið 2025 og 19% árásaraðila,“ segir ennfremur í tilkynningunni.

Athygli vekur einnig að heimilisofbeldismál á milli para, það er núverandi eða fyrrverandi, voru 791 í fyrra sem er fjölgun um 4% miðað við síðustu þrjú ár á undan. Alls eru tæplega tveir þriðju allra tilkynntra heimilisofbeldismála á milli para.

Aðeins þriðjungur þolenda tilkynnt heimilisofbeldi til lögreglu

Tæpur þriðjungur allra heimilisofbeldismála voru tilkynnt til lögreglu á landsbyggðinni en 73% á höfuðborgarsvæðinu. Hlutfallið á landsbyggðinni var þó ögn hærra á landsbyggðinni hvað varðar ágreiningsmál eða 33% samanborið við 67% á höfuðborgarsvæðinu.

„Í þolendakönnun lögreglunnar, sem lögð er fram árlega, er spurt um reynslu af afbrotum árið áður. Í niðurstöðum könnunarinnar árið 2025 sögðu 1,3% svarenda hafa orðið fyrir heimilisofbeldi af hendi maka eða fyrrum maka og af þeim sögðust 29% hafa tilkynnt tilvikið til lögreglu. Í Íslensku æskulýðsrannsókninni árið 2025 sögðust 7% nemenda í 9. bekk og 9% nemenda í 10. bekk hafa orðið vitni að ofbeldi gegn foreldri,“ segir loks í tilkynningunni, þar sem einnig er bent á að alltaf megi tilkynna um brot með því að hafa samband við Neyðarlínuna eða í gegnum ofbeldisgátt 112.is.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×