Erlent

Hvað býr bak­við sól­gler­augu Macron?

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Macron hélt ræðu á World Economic Forum í Davos í gær og vakti athygli fyrir að vera með gæjaleg sólgleraugu.
Macron hélt ræðu á World Economic Forum í Davos í gær og vakti athygli fyrir að vera með gæjaleg sólgleraugu. Getty/Anadolu/Harun Ozalp

Það er óhætt að segja að Emmanuel Macron Frakklandsforseti hafi vakið nokkra athygli í Davos, þar sem hann hefur skartað einstaklega töffaralegum flugstjórasólgleraugum með bláum speglaglerjum.

Ástæðan er þó ekki eintómur töffaraskapur heldur hefur verið greint frá því í frönskum miðlum að Macron sé með sprungna æð í öðru auganu. Er forsetinn sagður hafa ákveðið að bera gleraugun í stað þess að koma fram með annað augað rautt, bólgið og ófrýnilegt.

Samkvæmt BBC var Macron ekki með gleraugun þegar hann ávarpaði hermenn í suðurhluta Frakklands í síðustu viku og baðst þá afsökunar á útliti sínu. Gantaðist hann með ástandið á sér og sagðist vera með „l'oeil du tigre“, eða „auga tígursins“, sem er tilvísun í lag rokkhljómsveitarinnar Survivor sem hefur löngum verið tengt við kvikmyndina Rocky III frá 1982.

Æðaslit getur orðið við hraustlegan hnerra eða hósta, nú eða pot í augað. Þeir sem þjást af háum blóðþrýstingi eða sykursýki eru í aukinni áhættu. Ástandið er ekki hættulegt og lagast yfirleitt á um tveimur vikum.

Engin mynd fannst af rauðeygðum Macron í myndasöfnum en svo skemmtilega vill til að Getty á myndina hér fyrir neðan af Macron með Karli III Bretakonungi, þar sem síðarnefndi virðist einmitt þjást af æðasliti í auga.

Getty/WPA/Dylan Martinez



Fleiri fréttir

Sjá meira


×