Lífið

Kemur Önnu miðli til varnar: „Þið megið segja að ég sé auð­trúa asni“

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Helgi Magnús kemur miðlinum Önnu Birtu Lionaraki til varnar í Facebook-ummælum og segir hana hafa séð fyrir kransæðastíflu sem dró hann nærri til dauða.
Helgi Magnús kemur miðlinum Önnu Birtu Lionaraki til varnar í Facebook-ummælum og segir hana hafa séð fyrir kransæðastíflu sem dró hann nærri til dauða. Vísir/Lýður Valberg

Helgi Magnús Gunnarsson, fyrrverandi vararíkissaksóknari, segist hafa leitað til miðilsins Önnu Birtu Lionaraki sem hann segir að hafi séð fyrir að hann þyrfti að leita til læknis. Tveimur mánuðum eftir miðilsheimsóknina hafi hann greinst með lífshættulega kransæðastíflu.

Miðillinn Anna Birta Lionaraki var til umfjöllunar í nýjasta þætti Íslands í dag í gærkvöldi. Anna sagði þar frá því hvernig hún uppgötvaði miðilshæfileikana á unglingsaldri, reyndi að afneita þeim í fyrstu en gekkst á endanum við köllun sinni.

Anna sagðist í þættinum geta séð inn í hjarta fólks og líkama, jafnvel einstök líffæri. Hún byggi jafnframt yfir ofurnæmni, gæti fundið lykt af skjaldkirtilsvandamálum eða ef konur væru barnshafandi. 

„Ég hef alveg labbað í Kringlunni og heyrt: „Ó mæ god, ég er að halda framhjá. Ég verð að gera eitthvað.“,“ sagði hún um hugsanalestur sinn sem hún þyrfti oft að loka á í daglegu lífi.

„Talið varlega strákar mínir“

Grein upp úr þættinum var deilt á Facebook-síðu Vísis og fékk sú færsla töluverð viðbrögð. Vantrúaðir hæddust þar grimmt að yfirlýsingum miðilsins enda hljóma þær nokkuð fjarstæðukenndar fyrir hinn almenna mann. En þá barst Önnu stuðningsyfirlýsing úr óvæntri átt.

„Talið varlega strákar mínir. Það er auðvelt að slá öllu upp í hótfyndni,“ skrifar Helgi Magnús Gunnarsson, fyrrverandi vararíkissaksóknari, við færsluna og rekur síðan kynni sín af Önnu.

Helgi Magnús leitaði til Önnu miðils og var ánægður með störf hennar.Vísir/Arnar

„Ég þekki þessa konu af nokkrum netfundum með henni. Það gekk allt eftir sem hún sagði. Hlutir sem hún gat með engu móti séð fyrir eða vitað og áttu eftir að ske. Hún sá fyrir að ég þyrfti til læknis vegna hjartans, tveimur mánuðum áður en ég greindist með stórhættulega kransæðastíflu,“ skrifar hann í ummælunum.

Anna væri ekki læknir og hefði ekki sjúkdómsgreint hann en hefði þó séð að það væri eitthvað að hjartanu hans sem þyrfti að skoða. 

„Ég hafði ekki hugmynd, var bara sextíu ára og í góðu formi reyki ekki og hraustur. Varð líklega með öðru til þess að ég lét tékka á mér af litlu tilefni tveimur mánuðum síðar og fékk greiningu. Þið megið kalla þetta tilviljun ef þið viljið.“

„Hún sér helling og aðalatriðin sem skipta mestu“

„Hún lýsti óstudd ýmsu öðru sem var að angra mig líkamlega af fullkominni nákvæmni. Hlutum sem hún gat ekki með nokkru móti séð í gegn um vefmyndavél,“ skrifar Helgi í ummælunum.

„Hún nefndi nöfn persónur og leikendur í atvikum sem áttu eftir að henda mig án þess að ég gæti á nokkurn hátt tengt það fyrr en nokkrum vikum síðar þegar atvikin höfðu raungerst. Þessi hæfileiki er ekki eins og hún sé að horfa á kvikmynd svo hún getur ekki lýst atburðarás í smá atriðum, en útlínum og leikendum af mikilli nákvæmni.“

Fullyrðir hann að nánast allt sem hún sagði á fundum þeirra hefði hann séð í kjölfarið eða skömmu síðar. „Vissulega að því marki sem hún getur séð smáatriðin,“ skrifar hann

„Þið megið segja að ég sé auðtrúa asni[,] það er allt í lagi. Ef þið haldið það. En það er ekki svo og ég er ekki að oftúlka orð hennar. Hún sér helling og aðalatriðin sem skipta mestu,“ skrifar hann að lokum.


Tengdar fréttir

Snorri Másson leggi hornin á hilluna

Nýja árið fer ágætlega af stað og ýmislegt spennandi í vændum, þá sér í lagi í pólitíkinni. Ísland í dag bankaði því uppá hjá Valgerði Bachmann, spámiðil og bað hana að lesa í árið 2026. Það gerir Valgerður með því að lesa í spil, stjörnumerki og skilaboð að handan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.