Sport

Dómari skoraði í hand­bolta­leik og dæmdi markið síðan gilt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Leikmenn danska liðsins voru skiljanlega mjög ósáttir við það að lettneski dómarinn dæmdi markið gilt.
Leikmenn danska liðsins voru skiljanlega mjög ósáttir við það að lettneski dómarinn dæmdi markið gilt. @octavohandball

Dómari í Evrópudeildarleik í kvennaboltanum tók kannski aðeins of mikið þátt í leiknum á lokasekúndunum.

Franska liðið Dijon og danska liðið Viborg gerðu þá 30-30 jafntefli í riðlakeppni Evrópudeildarinnar en markið sem tryggði Dijon-konum jafnteflið var afar óvenjulegt svo ekki sé meira sagt.

Markið var skráð á Adriana Holejova, leikmann Dijon, en í raun var það annar dómari leiksins sem skoraði markið.

Vautier átti skot sem Stine Brolös Kristensen virtist verja í marki danska liðsins en boltinn fór af markverðinum og í dómarann sem stóð við hlið marksins. Þaðan lak boltinn síðan í markið og umræddur dómari dæmdi markið gilt.

Kristensen mótmælti skiljanlega en dómarinn sagðist vera hluti af vellinum og að hann gæti ekki annað en dæmt markið löglegt.

Dómarar leiksins voru Lettarnir Aleksandrs Radcenko og Ralfs Persis.

Þarna voru aðeins tíu sekúndur eftir og Danir náðu ekki að tryggja sér sigurinn heldur töpuðu boltanum á lokasekúndunum.

Það má sjá tvö myndbrot af þessu stórfurðulega marki frá tveimur sjónarhornum hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×