Innlent

Viður­kenni nú að hafa beitt Ís­lendinga efna­hags­legri hernaðarað­gerð

Eiður Þór Árnason skrifar
Eiríkur Bergmann er prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Bifröst.
Eiríkur Bergmann er prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Bifröst. Vísir/Einar

„Þeir hafa aldrei beðist afsökunar með neinum sérstökum formlegum hætti og breskir embættismenn og stjórnmálamenn segja það fullum fetum í mín eyru að þetta hafi verið efnahagsleg hernaðaraðgerð sem breska ríkið beitti Ísland.“ 

Þetta segir Eiríkur Bergmann stjórnmálafræðiprófessor um þá ákvörðun breskra stjórnvalda að beita hryðjuverkalögum gegn Íslandi með fordæmalausum hætti haustið 2008.

„Það sem er kannski ótrúlegast af öllu er að þessari hernaðarárás Breta gagnvart Íslandi á efnahagssviðinu höfum við Íslendingar aldrei svarað. Við höfum aldrei mótmælt hernaðaraðgerðinni með einhverjum formlegum, afgerandi hætti. Auðvitað hafa einstaka stjórnmálamenn sagt ýmsa hluti í gegnum tíðina en hernaðaraðgerðinni sem slíkri, ef við tökum þessu trúanlega sem mér er sagt af þessum embættismönnum, hefur í raun enn nánast tveimur áratugum ekki verið svarað.“

Eiríkur ræddi málið í Reykjavík síðdegis en nýlega voru birtar niðurstöður úr nýrri rannsókn hans þar sem hann reyndi að skyggnast bak við tjöldin á þessum örlagaríka tíma í íslenskri sögu þegar Icesave-deilan svokallaða stóð hvað hæst.

Hann segir rannsókn sína leiða í ljós „hvernig bresk stjórnvöld tóku þá meðvituðu og strategísku ákvörðun að fella íslenska bankakerfið, í stað þess að reyna að vinna með íslenskum stjórnvöldum [...]“.

Vantreyst íslenskum stjórnvöldum

Þann 8. október 2008 setti ríkisstjórn Bretlands undir forystu Gordon Brown, þáverandi forsætisráðherra og formanns Verkamannaflokksins, hryðjuverkalög á Ísland og Landsbankann um það leyti sem þrír stærstu íslensku bankarnir fóru í þrot. 

Frystu stjórnvöld þar með eignir íslenskra banka í Bretlandi en Bretar höfðu miklar áhyggjur af afdrifum fjármuna á Icesave-sparnaðarreikningum Landsbankans og Edge-reikningum Kaupþings sem boðið var upp á í Bretlandi.

Gordon Brown, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands.AP/Bebeto Matthews

„Ástæðan fyrir því að Bretar ákveða að beita þessari fordæmalausu hörku gagnvart Íslendingum á endanum var ekki bara sú að þeir hefðu misst trúna á samstarfinu við íslensk stjórnvöld, heldur hentaði þetta líka breskum stjórnvöldum nokkuð vel að fara af hörku gegn erlendum bönkum,“ segir Eiríkur.

Mótvægisaðgerð til að bæta ásýnd ríkisstjórnarinnar

Mikilvægt sé að hafa í huga að á sama tíma hafi bresk stjórnvöld unnið að því að bjarga breskum bönkum frá falli með gríðarlegum tilkostnaði, að sögn Eiríks. Verkamannaflokkurinn sem var þá við stjórn hafi talið að það yrði óvinsælt meðal kjósenda og einkum þeirra í baklandi Verkamannaflokksins að skera auðjöfra niður úr snörunni með þessum hætti á kostnað skattgreiðenda.

„Til þess svona að jafna þá ásýnd, þá hentaði þeim ágætlega að fara af hörku gegn öðrum bankamönnum á sama tíma. Og í rauninni þegar þeir tilkynna um björgun bankakerfisins í Bretlandi þá leggja þeir alveg sérstaklega áherslu á þessa hörku gagnvart íslensku bankamönnunum og rauninni bara Íslandi yfir höfuð sem svona vöðlaðist inn í það allt saman. Þannig að þetta var svona pólitískur jafnvægisleikur að einhverju leyti.“

Ásýnd hafi þannig spilað þátt í vegferð breskra stjórnvalda á þessum tíma.

„Það má segja að það séu tvær ástæður sem á endanum leiða til þessarar ákvörðunar. Fyrri ástæðan er áfram sú mikilvægari og hún er sú að þeir gefast upp á samskiptunum við íslensk stjórnvöld, telja sig vera beitta blekkingum og fá ekki réttar upplýsingar. Það verður samskiptaleysi og svo framvegis. Þeir bara missa trúna á samstarfi við íslensk stjórnvöld. Og þegar að það var orðin niðurstaðan í Bretlandi, þá hentaði þeim ágætlega að fara af fullri hörku gegn Íslandi,“ segir Eiríkur.

Ekki vegna illsku

Á þessum tímapunkti í október 2008 hafi það verið álit breskra stjórnvalda að íslensku bankarnir myndu ekki lifa fjárhagskrísuna af, að sögn Eiríks.

„Þarna sýndi auðvitað Bretland mátt sinn og megin og hafði ákveðna hagsmuni af því að fara af þessari hörku gegn Íslandi. En það verður að halda þessu í samhengi til að reyna að skilja þetta. Þetta er ekki bara af einhverri illsku sem þetta er gert heldur er það vegna trúnaðarbrestsins sem þarna var orðinn. Þeir töldu sig ekki fá réttar upplýsingar, töldu sig vera blekktir og það gaf þeim ástæðuna til þess að fara af þessari hörku. Svo var það erfitt fyrir okkur að þeir höfðu í rauninni ástæðu til þess að fara hart í okkur vegna stjórnmálanna innanlands.“

Rannsókn Eiríks byggir meðal annars á samtölum við breska stjórnmála- og embættismenn sem voru í hringiðunni á þessum umbrotasama tíma. Hann fjallar um niðurstöðurnar í fræðibókinni Crisis in Context en hér má nálgast kafla Eiríks um viðbrögð Breta.


Tengdar fréttir

Icesave 1. hluti: Svo einfalt í fyrstu

Icesave, sem byrjaði sem saklaus leið Landsbankans til að fjármagna sig, snerist við hrunið upp í andhverfu sína og er eitt flóknasta og erfiðasta viðfangsefni sem þjóðin hefur tekist á við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×