Sport

Fiorentina sagt hafa hafnað til­boði Juventus í Albert

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Albert Guðmundsson er mikilvægur fyrir Fiorentina. 
Albert Guðmundsson er mikilvægur fyrir Fiorentina.  Emmanuele Ciancaglini/Ciancaphoto Studio/Getty Images

Ítalska stórliðið Juventus vill fá Albert Guðmundsson til félagsins en Fiorentina hefur hafnað tilboði í íslenska landsliðsmanninn.

Sky Sports greindi frá þessu í beinu streymi þar sem fylgst er með ítalska félagaskiptamarkaðnum og samfélagsmiðlaskúbbarinn Matteo Moretto sögðu sömu sögu í hlaðvarpsþætti Fabrizio Romano.

Fiorentina hefur fengið tvo kantmenn til félagsins á síðustu dögum en er ekki tilbúið að sleppa einum besta leikmanni liðsins. Albert hefur verið algjör lykilmaður hjá Fiorentina, skorað sjö mörk og gefið fjórar stoðsendingar í 26 leikjum öllum keppnum.

Juventus er sagt hafa verið áhugasamt um Albert lengi, en Fiorentina er sagt vilja fá annað hvort miðvörðinn Daniele Rugani eða miðjumanninn Fabio Miretti, auk peningagreiðslu, í skiptum fyrir Albert.

Gamla frúin var ekki tilbúin að láta þá af hendi en ákvað samt að bjóða í Albert. Fiorentina hafnaði tilboðinu og viðræðurnar hafa staðnað, samkvæmt fyrrnefndum Matteo Moretto.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×