Innlent

Kom ekki á teppið

Eiður Þór Árnason skrifar
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðhera.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðhera. Vísir/Lýður Valberg

Bandarísk yfirvöld hafa ekki brugðist við ákúrum utanríkisráðherra eftir að sendiherraefni þeirra gantaðist með að Bandaríkin gætu tekið yfir Ísland og gert hann að ríkisstjóra landsins.

„Við heyrðum að fyrrverandi þingmaðurinn Billy Long, sem Trump tilnefndi sem sendiherra á Íslandi, hafi grínast við þingmenn í gærkvöldi og sagt að Ísland yrði 52. ríki Bandaríkjanna og hann yrði ríkisstjóri,“ skrifaði blaðamaður vefmiðilsins Politico þann 14. janúar. 

Ummælin vöktu megna óánægju. Þingflokksformaður Viðreisnar sagði grínið ógna Íslandi, undirskriftum var safnað þar sem íslensk stjórnvöld voru hvött til að hafna tilnefningu sendiherrans og annar hópur safnaði undirskriftum til stuðnings honum

Þá kallaði utanríkisráðherra fulltrúa bandaríska sendiráðsins á teppið í ráðuneytinu þar sem átti að krefja hann skýringa. Ekki hefur verið skipað í sendiherrastöðuna eftir að Trump tók aftur við sem forseti í byrjun síðasta árs. 

Svo fór að Long baðst afsökunar á ummælunum og sagði einungis um grín að ræða innan um gamla félaga. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra lýsir nú ummælunum sem kjánalegum.

Fullveldi ekkert gamanmál

„Það er ekki gamanmál að gera grín að fullveldi þjóða. Við tökum því mjög alvarlega. Og þess vegna er þýðingarmikið fyrir okkur að tala meðal annars mjög skýrt með Grænlandi. Því ef að við tölum ekki skýrt þar og stöndum með Grænlandi og fullveldi þess, að þá erum við ekki að standa með sjálfum okkur,“ sagði Þorgerður í samtali við fréttastofu í dag. Lítið sé að frétta af málinu nú sléttri viku eftir að hún krafðist viðbragða.

„Ég hef ekkert meira um þetta að segja nema að ég hef kallað eftir viðbrögðum og skýringu frá stjórnvöldum í Bandaríkjunum varðandi þetta.“

Hefur ekkert komið frá sendiráðinu?

„Ég hef ekki fengið svar en það hlýtur að berast einn daginn. Ég bara undirstrika það sem ég sagði um daginn. Mér var ekki skemmt yfir þessu þó að það séu ýmsir sem hafi fundist þetta bara sniðugt hérna heima. Mér finnst það skringileg nálgun því við erum í þessum heimi þar sem er verið að takast á um fullveldi, inngrip og fleira. Þá verðum við að taka öllu svona af skynsemi og yfirvegun en af festu.“

Áður gantast með Ísland

Bandaríkjastjórn hefur tilnefnt Long sem næsta sendiherra á Íslandi en hann hefur þó enn ekki verið skipaður af öldungadeild þingsins. 

Long er íhaldssamur repúblikani sem tók fyrst sæti í fulltrúadeild Bandaríkjaþings fyrir heimaríki sitt Missouri árið 2011. Þar sat hann í sex kjörtímabil til ársins 2023. Áður hafði hann meðal annars unnið sem uppboðshaldari og fasteignasali á heimaslóðum.

Hinn 69 ára gamli Long var skattstjóri Bandaríkjanna í innan við tvo mánuði, skemur en nokkur annar í sögu stofnunarinnar. Dagana áður en Long var sparkað frá skattinum hafði slegið í brýnu á milli stofnunarinnar og Hvíta hússins vegna upplýsinga sem það falaðist eftir til þess að hafa hendur í hári fólks sem er sakað um að dvelja ólöglega í Bandaríkjunum.

Ísland hefur áður verið skotspónn hins gamansama Long. Í færslu sem hann birti eftir að hann var tilnefndur sendiherra á Íslandi gerði hann að því skóna að forsetinn hefði misskilið ósk hans um að fá að ganga til liðs við ICE, innflytjendastofnun Bandaríkjanna, og sent hann til Íslands í staðinn.


Tengdar fréttir

Kallar fulltrúa sendiráðsins á teppið: „Mér er ekki skemmt“

Fulltrúi bandaríska sendiráðsins á Íslandi hefur verið kallaður á teppið í utanríkisráðuneytinu í dag þar sem hann verður krafinn skýringa um meint ummæli mögulegs sendiherraefnis Bandaríkjanna gagnvart Íslandi. Skorað hefur verið á Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur utanríkisráðherra að bregðast við vegna brandara Billy Long um að gera ætti Ísland að 52. ríki Bandaríkjanna.

Sendiherraefnið biðst af­sökunar

Billy Long, mögulegur sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, hefur beðist afsökunar á ummælum sínum um að gera Ísland að 52. ríki Bandaríkjanna. Einungis hafi verið um grín að ræða.

Verðandi sendiherra grínaðist með að Ísland yrði 52. ríkið

Væntanlegur sendiherra Bandaríkjanna hér á landi og fyrrverandi þingmaður í fulltrúadeild Bandaríkjaþings grínaðist með það við þingmenn í gær að Ísland yrði 52. ríkið og að hann yrði ríkisstjóri. Í þinginu eru nú stíf fundarhöld um fjárlög þar sem menn róa öllum árum að því að koma í veg fyrir aðra lokun ríkisstofnana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×