Liverpool-vandræðin halda á­fram og Bournemouth með sigur­mark í blá­lokin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Virgil van Dijk gerði risastór mistök í fyrsta markinu sem bjó til öll vandræðin fyrir ensku meistarana.
Virgil van Dijk gerði risastór mistök í fyrsta markinu sem bjó til öll vandræðin fyrir ensku meistarana. Getty/Liverpool FC

Liverpool tapaði sínum fyrsta deildarleik síðan í nóvember þegar liðið heimsótti Bournemouth á suðurströndina í ensku úrvalsdeildinni í dag.

Bournemouth vann dramatískan 3-2 sigur þökk sé sigurmarki Amine Adli í uppbótartíma leiksins.

Dominik Szoboszlai hélt að hann hefði tryggt Liverpool fimmta jafnteflið í röð með laglegu skoti fyrir utan teig eftir stutta aukaspyrnu frá Mohamed Salah. Það mark kom á 80. mínútu og Liverpool-menn reyndu að sækja sigurinn.

Það voru hins vegar heimamenn sem tryggðu sér sigur með marki eftir darraðardans og vandræði í Liverpool-vörninni eftir langt innkast. Boltinn féll á endanum fyrir Amine Adli sem kom honum í netið.

Leikmenn og knattspyrnustjóri Liverpool, Arne Slot, mótmæltu en þeir gátu engum kennt um nema sér sjálfum.

Hræðileg mistök Virgil van Dijk færðu Bournemouth mark á silfurfati á 26. mínútu og Evanilson nýtti sér það. Joe Gomez meiddist í aðdraganda marksins og var enn úti af vellinum þegar Alex Jimenez kom Bournemouth í 2-0 á 33. mínútu.

Virgil van Dijk bætti aðeins fyrir mistökin þegar hann skallaði hornspyrnu Dominik Szoboszlai í markið rétt fyrir hálfleik.

Liverpool reyndi allt til að jafna metin í seinni hálfleik en það tókst ekki fyrr en tíu mínútum fyrir leikslok. Þá var von á sigurmarki en eins og oft áður á þessu tímabili féllu hlutirnir ekki fyrir Liverpool-mönnum á lokasekúndunum og þeir fengu enn á ný á sig svekkjandi og súrt mark sem kostaði liðið stig.

Leikmenn Bournemouth fögnuðu gríðarlega enda langt síðan liðið vann Liverpool og það hafa ekki verið margir sigrar hjá liðinu að undanförnu.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira