Handbolti

„Vantar meiri leiðindi og fávitaskap frá okkur“

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Ýmir Örn og félagar fá alvöru verkefni í kvöld að halda aftur af Svíunum.
Ýmir Örn og félagar fá alvöru verkefni í kvöld að halda aftur af Svíunum. vísir/vilhelm

„Við erum hrikalega svekktir eftir tapið gegn Króötum. Það þarf að hrista það strax af sér og við verðum klárir í Svíana,“ segir varnartröllið Ýmir Örn Gíslason fyrir æfingu Íslands í Malmö í gær.

Íslenska vörnin var tekin í bólinu gegn Króötum og þá aðallega í fyrri hálfleik er liðið fékk á sig nítján mörk og gat ekki klukkað sóknarmenn króatíska liðsins.

Klippa: Ýmir vill fá meiri leiðindi í varnarleikinn

„Við vorum ekki nógu áræðnir í fyrri hálfleik. Þeir eru að taka skotin fyrir utan og við þurftum að fara meira út. Vera með meiri leiðindi og fávitaskap frá okkur. Það vantaði frá öllum. Það var betra í seinni hálfleik en það var ekki nóg og við töpuðum leiknum.“

Fram undan er úrslitaleikur við Svía á alvöru útivelli. Ef Ísland tapar þeim leik geta strákarnir svo gott sem kysst undanúrslitin bless.

„Þetta er ástæðan fyrir að við erum í þessu. Að fá að spila með landsliðinu í svona leikjum með okkar fólk í stúkunni. Við verðum að skila okkar og við förum inn í þennan leik til að vinna. Við verðum að fá þessi tvö stig og gera mikið betur en gegn Króötum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×