Handbolti

Slóvenar unnu upp fjögurra marka for­skot Ung­verja og fögnuðu sigri

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Domen Makuc fagnar einu marka sinna fyrir slóvenska landsliðið í dag.
Domen Makuc fagnar einu marka sinna fyrir slóvenska landsliðið í dag. EPA/Johan Nilsson

Slóvenar eru með fjögur stig í milliriðli Íslands eftir þriggja marka sigur á Ungverjum á EM í handbolta, 35-32, en þetta var fyrsti leikurinn í okkar riðli í dag.

Ungverjar byrjuðu vel, náðu mest fjögurra marka forskoti í fyrri hálfleiknum (16-12 og 17-13) og voru tveimur mörkum yfir í hálfleik 17-15 eftir að Slóvenar skoruðu tvö síðustu mörk hálfleiksins.

Ungverjar misstu Slóvena frá sér í seinni hálfleiknum. Slóvenar skoruðu alls fimm mörk í röð, tvö þau síðustu í fyrri hálfleik og þrjú þau fyrstu í þeim síðar.

Þeir voru síðan fljótlega komnir þremur mörkum yfir og voru skrefinu á undan út leikinn.

Ungverjar eru því með eitt stig og eiga ekki lengur möguleika á undanúrslitasæti. Slóvenar ætla aftur á móti að vera með í baráttunni um að komast í leiki um verðlaun.

Blaz Janc var með tíu mörk fyrir Slóvena og þeir Stas Jovicic og Kristjan Horzen skoruðu báðir fimm mörk. Bence Imre var markahæstur hjá Ungverjum með átta mörk úr átta skotum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×