Innlent

Loðna fundist á stóru svæði

Eiður Þór Árnason skrifar
Hafrannsóknaskipið Árni Friðriksson er notað í leitinni.
Hafrannsóknaskipið Árni Friðriksson er notað í leitinni. Friðrik Þór Halldórsson

Loðna hefur fundist á stóru svæði í mælingu Hafrannsóknastofnunar sem er langt komin. Stefnt er að því að birta veiðiráðgjöf í seinni hluta þessarar viku en einungis á eftir að fara yfir takmarkað svæði út af Vestfjörðum.

Hafrannsóknastofnun veitir stjórnvöldum og hagsmunaaðilum ráðgjöf varðandi sjálfbæra nýtingu á fiskstofnunum og er horft til hennar við ákvörðun fiskveiðiheimilda. Nú er von á nýrri ráðgjöf frá stofnuninni fyrir núverandi verktíð. Við síðustu ráðgjöf var tillaga að hámarksafla loðnu lækkað um sex prósent í 43. 766 tonn.

„Þótt mælingum sé ekki lokið vill Hafrannsóknastofnun greina lítillega frá niðurstöðum sem varða ástand loðnunnar og dreifingu. Vísindamenn stofnunarinnar munu svo á næstu dögum yfirfara gögn, meta stærð veiðistofnsins, óvissu í mælingunum og afrán ásamt því að ákvarða ráðgjöf fyrir yfirstandandi vertíð,“ segir í tilkynningu frá Hafrannsóknarstofnun.

Nýja ráðgjöfin muni bæði byggja á umræddri mælingu og mælingum sem fóru fram á stærð veiðstofnsins haustið 2025.

Verið kynþroska að stærstu leyti

Að sögn Hafrannsóknastofnunar er loðnan dreifð yfir stóran hluta yfirferðarsvæðisins en mesti þéttleikinn í fremsta hluta göngunnar fyrir austan land og úti af Húnaflóa. Langstærsti hluti loðnunnar fyrir norðan og austan land hafi verið kynþroska og muni því hrygna á næstu vikum. Hrognaprósenta loðnunnar hafi verið á bilinu sex til átta prósent víðast hvar.

Fiskistofa hefur þegar úthlutað 31.046 tonna loðnukvóta og 170.112 tonnum af kolmunna fyrir fiskveiðiárið 2025/2026 og almanaksárið 2026.

Fyrsta loðna vertíðarinnar barst á land á Norðfirði í byrjun síðustu viku.


Tengdar fréttir

Rannsóknaskipin gera hlé á loðnuleit vegna óveðurs

Hafrannsóknaskipin Þórunn Þórðardóttir og Árni Friðriksson hafa neyðst til að gera hlé á loðnumælingum vegna brælu undan Húnaflóa. Báðum hefur verið siglt í átt að landi í var.

Norðfirðingar gleðjast að sjá loðnuna birtast

Gleði ríkti á Norðfirði í dag þegar fyrstu loðnunni á þessari vertíð var landað hjá Síldarvinnslunni. Loðnunni er lýst sem stórri og fallegri og fer hún öll í heilfrystingu til manneldis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×