Handbolti

„Við mættum ó­trú­lega góðu ís­lensku liði í dag“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Albin Lagergren hrósaði íslenska liðinu fyrir grimmdina og varnarleikinn. Hér hefur hann lent í útistöðum við Hauk Þrastarson og Bjarki Már Elísson var strax mættur til að styðja sinn mann.
Albin Lagergren hrósaði íslenska liðinu fyrir grimmdina og varnarleikinn. Hér hefur hann lent í útistöðum við Hauk Þrastarson og Bjarki Már Elísson var strax mættur til að styðja sinn mann. EPA/Johan Nilsson

Ísland gjörsigraði Svíþjóð í Malmö Arena í kvöld og sænsku miðlarnir leituðu skýringa hjá leikmönnum sænska liðsins sem höfðu unnið fjóra fyrstu leiki sína á Evrópumótinu.

Svíþjóð hafði þarna tækifæri til að tryggja sér sæti í undanúrslitum Evrópumótsins í handbolta en uppskeran var stórtap á móti Íslandi.

„Ég er svolítið tómur. Þetta er súrt, þetta er slæmt. Það er hægt að tapa en maður á ekki að tapa með átta marka mun í landsleik, finnst mér,“ sagði Jim Gottfridsson við Sportbladet eftir leikinn.

Í seinni hálfleik minnkaði sænska liðið muninn í eitt mark en Ísland jók forskotið aftur og lokamínúturnar voru nokkuð spennulausar.

Töpum fyrir liði sem er klárlega betra

„Við töpum fyrir liði sem er klárlega betra. Okkur tekst þetta ekki. Við ræddum hvernig við ættum að spila í vörninni en það verður alls ekki eins og við viljum. Þeir vinna einvígin sín nánast alltaf,“ sagði Albin Lagergren sem var markahæstur Svía með fimm mörk.

„Þeir spila frábæran leik og eru klárlega betra liðið. Svona er þetta stundum. Hvað það er nákvæmlega sem gerir það að verkum að við erum ekki nógu góðir í dag er erfitt að svara núna,“ sagði Lagergren.

Hægri skyttan Lukas Sandell átti einnig erfitt með að svara því hvað gerðist.

Ótrúlega góðir í einn á einn leik

„Við mætum ótrúlega góðu íslensku liði í dag. Þeir eru ótrúlega góðir í einn á einn leik og vinna hundrað einvígi í fyrri hálfleik, finnst manni. Mér finnst við gera það betur í seinni hálfleik. Þess vegna komumst við aftur inn í leikinn en svo veit ég ekki hvað,“ sagði Sandell.

„Við eigum ekki að vera sáttir með þetta,“ sagði markvörðurinn Andreas Palicka en Aftonbladet tók saman nokkur viðbrögð sænsku leikmannanna.

Þetta er auðvitað mjög þungt

„Þetta er auðvitað mjög þungt. Þetta var slakur leikur hjá okkur, finnst mér. Við náum engum liðshluta saman í dag og það einkennir allan leikinn. Við söfnum kröftum í hálfleik og komum til baka, en svo er eins og við stöðnum aftur. Eins og í fyrri hálfleik,“ sagði Palicka.

Ísland fór fram úr Svíum á toppi milliriðilsins en Svíþjóð hefur samt eins og Ísland allt í sínum höndum og mætir tveimur, á pappírnum, slakari mótherjum í síðustu leikjunum. Næsti leikur er gegn Ungverjalandi á þriðjudag og síðan bíður Sviss á miðvikudag.

Tvö efstu liðin í riðlinum fara í undanúrslit sem spiluð verða í Herning í Danmörku.

„Akkúrat núna er þetta mjög erfitt. Maður er vonsvikinn með sjálfan sig og alla frammistöðuna. En maður fær að súpa hveljur í kvöld og á morgun er full einbeiting. Við höfum enn þá ótrúlega möguleika á að komast til Danmerkur,“ sagði Lagergren.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×