Innlent

Hand­tekinn grunaður um í­kveikju

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Fjöldi ökumanna var stöðvaður við almennt umferðareftirlit í gærkvöldi og nótt.
Fjöldi ökumanna var stöðvaður við almennt umferðareftirlit í gærkvöldi og nótt. Vísir/Vilhelm

Einn var handtekinn í gærkvöldi eða nótt, grunaður um íkveikju, þegar útkall barst vegna elds í fjölbýlishúsi á höfuðborgarsvæðinu. Eldurinn reyndist minniháttar en mikill reykur var í íbúðinni þar sem hann kom upp. Slökkvilið annaðist slökkvistarf en lögregla tók við vettvangnum eftir að því lauk og er málið í rannsókn.

Frá þessu er greint í yfirliti lögreglu yfir verkefni næturinnar en þar segir ekki nákvæmlega hvar á höfuðborgarsvæðinu eldurinn kom upp.

Lögregla handtók einnig ökumann í gær, eftir að hann var stöðvaður við að aka yfir á rauðu ljósi. Viðkomandi reyndist í ólöglegri dvöl, auk þess sem hann er grunaður um ólöglega sölu áfengis, peningaþvætti og að ráða sig í vinnu án leyfis.

Annar var handtekinn eftir að tilkynning barst um einstakling undir áhrifum sem var sagður láta ófriðlega. Sá gat hvorki gert grein fyrir sér né framvísað skilríkjum. Hann er grunaður um brot á lögum um útlendinga, segir í yfirliti lögreglu.

Óskað var aðstoðar lögreglu vegna innbrots í heimahús og þá mætti einstaklingur á lögreglustöð og tilkynnti um stuld á tösku. Fjöldi var stöðvaður í umferðinni við almennt umferðareftirlit, margir undir áhrifum. Þá reyndist einn ökumaður aðeins sextán ára gamall en það mál var leyst með aðkomu foreldra og barnaverndar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×