Innlent

Aukin veikinda­for­föll ekki vegna einstaklingsbundinna vanda­mála

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Kolbrún Halldórsdóttir formaður BHM.
Kolbrún Halldórsdóttir formaður BHM. Vísir/Vilhelm

Of einföld mynd hefur verið dregin upp af veikindaforföllum á vinnumarkaði og látið að því liggja að þau séu einstaklingsbundin heilbrigðisvandamál. Nýjustu gögn frá Noregi, Svíþjóð og Danmerku benda hinsvegar til þess að kerfislægar ástæður liggi að baki, álag, mannekla og sífellt kröfuharðara vinnuumhverfi þar sem streita, kvíði og þunglyndi vegi sífellt þyngra.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýrri greiningu BHM á veikindaforföllum og streitu á vinnumarkaði með samanburði við þróuun á Norðurlöndum. Þar segir meðal annars að álagstengdir sjúkdómar og stress séu þekktir áhrifavaldar, sem bitni ekki síst á fólki í framlínu opinberrar þjónustu.

„Þann hóp þekkir BHM vel, þar er m.a. um að ræða fjölmennar kvennastéttir og háskólamenntaða sérfræðinga. Aukið álag, mannekla og kröfuharðara vinnuumhverfi hefur áhrif á þjónustugæði, starfsánægju og getu samfélagsins til að halda í dýrmætan lykilmannauð. Það kallar á samstillt átak að færa til betri vegar það sem aflaga hefur farið.“

Segir að mikilvæg áskorun sé fólgin í skráningu tölfræðiupplýsinga sem sé mun nákvæmari hjá nágrönnum Íslands á hinum Norðurlöndunum. Segir í tilkynningunni að BHM telji nauðsynlegt að horfa heildstætt á málin til að dýpka umræðuna.

„Í því sambandi þarf að leggja fleira til grundvallar en veikindaforföll ein og sér, t.d. þarf að efla vinnuvernd og forvarnir með kerfislægri nálgun og styrkja snemmtæka starfsendurhæfingu og endurkomu til vinnu, með lærdómi af reynslu nágrannalanda. Rýna þarf kerfin, sem við höfum byggt upp og ná samkomulagi um þróun þeirra til framtíðar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×