Innlent

Ekki fleiri barnaníðsmál í fimm­tán ár

Smári Jökull Jónsson skrifar
Kynferðisbrotum fjölgaði á milli ára.
Kynferðisbrotum fjölgaði á milli ára. Vísir/Ívar Fannar

Tilkynningum um barnaníð fjölgaði umtalsvert á síðasta ári samkvæmt skýrslu ríkislögreglustjóra. Yfirmaður kynferðisbrotadeildar segir óvenjumörg stór mál hafa komið upp síðustu mánuði og segir að gagnrýni vegna seinagangs rannsókna á sínum tíma hafi verið réttmæt.

Samkvæmt skýrslu ríkislögreglustjóra fjölgaði tilkynningum um kynferðisbrot á milli ára og voru alls 629 talsins á síðasta ári. 

Tilkynnt var um 51 barnaníðsbrot, það mesta á síðustu fimmtán árum og nemur fjölgunin 53% ef miðað er við meðaltal síðustu þriggja ára. Alls var tilkynnt um 133 kynferðisbrot gegn börnum á síðasta ári en slík mál fara ávallt í forgang hjá kynferðisbrotadeild lögreglunnar.

Tilkynningum um kynferðisbrot fjölgaði umtalsvert frá því á síðasta ári.Vísir

Af hverju heldur þú að það sé búið að vera mikið um þessi mál síðustu mánuði?

„Samfélagið er orðið miklu opnara að ræða þessi mál almennt og fólk er orðið meðvitaðra um að það er hægt að fylgja þeim eftir með því að leita til lögreglu. Um leið og eitthvað fer af stað í fjölmiðlum og til umræðu í samfélaginu þá eykur það að fólk komi fram ef eitthvað hefur komið fyrir það,“ sagði Bylgja Hrönn Baldursdóttir yfirmaður kynferðisbrotadeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Segir gagnrýni hafa átt rétt á sér

Síðustu mánuði hafa komið upp fjögur alvarleg kynferðisbrot gagnvart börnum sem greint hefur verið frá í fjölmiðlum. Bylgja segist ekki vön því að svona mörg mál komi upp á skömmum tíma.

„Ekki svona mikið af stórum og miklum málum. Það gefur auga leið að þegar kemur inn svona stórt mál að það hægir það á ferlinu á öllum hinum málunum. Við verðum eiginlega bara að biðla til fólks að sýna skilning hvað það varðar.“

Óvenju mörg stór kynferðisbrotamál gagnvart börnum hafa komið upp á síðustu mánuðum.Vísir

Kynferðisbrotadeildin er með um 150 mál í rannsókn sem stendur en hún fékk gagnrýni á sínum tíma vegna seinagangs rannsókna. Bylgja segir málshraða hafa aukist eftir að breytingar voru gerðar á innflæði mála til deildarinnar.

„Það var gagnrýni sem átti rétt á sér. Við vorum lengi með mörg mál en sem betur fer get ég sagt frá að við höfum breytt verkferlum hjá okkur.“

Erfið mál fyrir starfsfólk lögreglunnar

Þegar upp koma mál sem tengjast börnum aðstoða utanaðkomandi aðilar við rannsókn málsins.

„Það er skilyrði að barnavernd sé meðvituð um skýrslutökur og viðstödd. Skýrslur sem eru teknar af börnum ef börn eru brotaþolar þá fara þau fram í Barnahúsi með aðstoð sérfræðinga þaðan.“

Tilkynningum um kynferðisbrot gegn börnum fjölgaði á milli ára og fjöldi barnaníðsmála var sá mesti í áraraðir.Vísir

Slík mál séu sérstaklega vandmeðfarin og málin hafi áhrif á þá sem að þeim koma.

„Auðvitað er þetta erfitt fyrir starfsfólk því flestir á minni deild eru með börn á leikskólaaldri, jafnvel á leik- og grunnskólaaldri. Þeir sem eiga ekki börn á þeim aldri eiga sumir barnabörn. Auðvitað hefur þetta áhrif á okkur öll. Við erum með úrræði, getum leitað til sálfræðings ef á þarf að halda og ráðleggjum fólkinu okkar að gera það ef þess þarf,“ segir Bylgja.

„Þetta hefur gríðarleg áhrif á alla, hvort sem þaðr eru börnin, foreldrar barnanna, nánustu ættingjar eða við hin úti í samfélaginu. Það finna allir til með börnum.“

Bylgja segir nauðsynlegt að almenningur sé upplýstur um hvaða úrræði séu til staðar.

„Það mætti alveg vera meira um að fólk gæti sótt sér upplýsingar á auðveldari hátt. Á 112.is er fullt af upplýsingum og þar er hægt að skoða þessa flokka og fá svör. Ég held að fólk viti ekki endilega hvar það á að sækja þessar upplýsingar. Við erum komin með samfélagslöggæslu á höfuðborgarsvæðinu og á landsvísu. Þá er greiðari aðgangur fyrir lögreglu að gefa þessar upplýsingar í staðinn fyrir að maður standi úti á horni og enginn hlustar á mann.“


Tengdar fréttir

Játaði meira og meira eftir því sem á leið

Framburður manns sem ákærður er fyrir kynferðisbrot gegn barni sem hann mun hafa framið meðan hann starfaði á leikskólanum Múlaborg í Reykjavík þótti að mati lögreglu samræmast frásögn barnsins af meintum brotum hans. Maðurinn játaði í skýrslutökum hjá lögreglu að hafa brotið tvívegis á barninu.

For­eldrarnir vissu ekki af kyn­ferði­sof­beldinu

Foreldrar sex ára gamallar stúlku höfðu enga vitneskju um að brotið hefði verið kynferðislega gegn henni fyrr en lögregla hafði samband. Karlmaður sem er ákærður fyrir brotið dreifði ljósmyndum á netinu sem komu lögreglu á snoðir um málið. Alþjóðlegt samstarf skipti sköpum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×