Innlent

„Förum strax í lífsbjargandi að­gerðir“

Samúel Karl Ólason skrifar
Íbúðin er gjörónýt eftir eldinn.
Íbúðin er gjörónýt eftir eldinn. Vísir/Bjarni

Kona liggur þungt haldin á gjörgæsludeild eftir að eldur kom upp í íbúð hennar í Reykjanesbæ seint í gærkvöldi. Sjö hundar voru í íbúðinni og drápust en slökkviliðsstjóri segir konuna hafa verið komna í sjúkrabíl innan við tíu mínútum eftir að útkallið barst.

Tilkynningin um eldinn barst til Brunavarna Suðurnesja klukkan sex mínútur í ellefu í gærkvöldi. Eldur hafði kviknað í íbúð í fjölbýlishúsi en sex manns voru í húsinu.

Slökkvistöðin er tiltölulega skammt frá húsinu og tók einungis tvær mínútur fyrir fyrstu menn að mæta á vettvang, en allt slökkviliðið var kallað út vegna eldsins.

Sjá einnig: Kona þungt haldin og sjö hundar hennar brunnu inni

Eyþór Rúnar Þórarinsson, slökkviliðsstjóri Brunavarna Suðurnesja, sagði í kvöldfréttum að þegar fyrstu menn mættu á staðinn hafi íbúðin verið alelda.

„Við sjáum bara eldtungurnar út um svalardyrnar og fáum tilkynningu um að það sé manneskja föst inni. Þannig að við förum strax í lífsbjargandi aðgerðir.“

Hann segir að reykkafarar hafi strax gert sig klára en aðrir í fjölbýlishúsinu hafi verið komnir út af sjálfsdáðum. Reykkafarar fóru inn í íbúðina og náðu konunni út á meðan aðrir slökkviliðsmenn unnu að því að vinna bug á eldtungunum.

Eyþór segir þetta hafa gengið vel. Það hafi líklega ekki verið liðnar tíu mínútur eftir að útkallið barst og þar til konan var komin í sjúkrabíl. Þá var hún meðvitundarlaus en með púls.

Í kjölfarið hafi gengið fljótt að slökkva eldinn.

Eyþór segir íbúðina gjörónýta og að reykskemmdir hafi orðið á öðrum íbúðunum. Slökkviliðsmenn hafi þurft að reykræsta þær allar í nótt.

Eins og áður segir dóu sjö hundar í eldsvoðanum. Einn komst þó út úr íbúðinni.

Eldsvoðinn er nú í rannsókn hjá lögreglu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×