Skoðun

Frá bið­listum til raun­hæfra lausna - Félags­bústaðir fyrr og nú

Einar Sveinbjörn Guðmundsson skrifar

Reykjavík stendur frammi fyrir raunverulegri áskorun á húsnæðismarkaði. Nú eru tæplega 600 einstaklingar og fjölskyldur á biðlista eftir félagslegu húsnæði í borginni. Undanfarin ár hefur þrýstingur á félagslega húsnæðiskerfið aukist hratt, meðal annars vegna hækkandi húsnæðiskostnaðar, vaxta og skorts á hagkvæmum leiguíbúðum. Hefðbundnar leiðir til uppbyggingar hafa ekki haldið í við þörfina. Þetta eru ekki bara tölur á blaði, heldur fólk sem býr við óvissu næstu mánuði – jafnvel ár. Sem borgaryfirvöld ber okkur skylda til að bregðast við, af festu, ábyrgð og með skýra framtíðarsýn.

Á borgarstjórnarfundi 20. janúar samþykkti meirihluti borgarstjórnar mikilvægar aðgerðir til að styrkja stöðu Félagsbústaða og hraða uppbyggingu félagslegs húsnæðis - án þess að hækka leigu eða grafa undan fjárhagslegri sjálfbærni félagsins. Kjarni málsins er einfaldur: núverandi aðferðir duga ekki lengur einar og sér í þeirri stöðu sem upp er komin.

Neikvætt sjóðstreymi

Félagsbústaðir hafa hingað til byggt upp íbúðakost sinn að stórum hluta með forkaupsrétti að 5% íbúða á nýjum uppbyggingarsvæðum, í samræmi við samningsmarkmið borgarinnar. Sú leið hefur reynst hagkvæm og mikilvæg, en framboðið er einfaldlega of takmarkað til að mæta þeirri eftirspurn sem blasir við. Á sama tíma er staðan sú að kaup á íbúðum á almennum markaði skila neikvæðu sjóðstreymi frá fyrsta degi. Það er staðreynd sem gerir það óábyrgt að ætla Félagsbústöðum að leysa vandann einungis með markaðskaupum, nema á kostnað leigutaka eða fjárhagslegs stöðugleika félagsins.

Þess vegna samþykkti borgarstjórn að Reykjavíkurborg leggi til beint eiginfjárframlag næstu fimm árin. Markmiðið er skýrt: að gera Félagsbústöðum kleift að kaupa og byggja íbúðir sem skila jákvæðu sjóðstreymi og tryggja rekstrarlegan stöðugleika til lengri tíma. Með beinu eiginfjárframlagi er borgin að velja fjárhagslega ábyrga leið, frekar en að ýta kostnaði áfram inn í kerfið með hækkandi leigu, lengri biðlistum eða ótryggri skuldsetningu. Þannig er brugðist við vandanum við rót hans - í stað þess að meðhöndla aðeins afleiðingarnar.

Nýtt uppbyggingarlíkan

Það er auðvelt að vera sammála um markmiðin. Erfiðara er að taka ákvarðanir sem kosta fjármagn og krefjast ábyrgðar. Meirihluti borgarstjórnar hefur valið að gera hvort tveggja. Við viljum fjölga félagslegum íbúðum, stytta biðlista og tryggja að fólk hafi aðgang að öruggu húsnæði - án þess að velta kostnaðinum yfir á þá sem síst mega við því.

Næstu skref eru þau að borgarstjóra verður falið, í samstarfi við Félagsbústaði, að kanna nýtt uppbyggingarlíkan þar sem borgin, Félagsbústaðir eða félag á þeirra vegum gæti komið beint að uppbyggingu hagkvæmra íbúða. Þegar markaðurinn skilar ekki nægjanlegu framboði af húsnæði sem fólk ræður við, er það hlutverk hins opinbera að grípa inn í með markvissum hætti. Slík nálgun er hvorki róttæk né nýstárleg í alþjóðlegu samhengi. Sambærileg líkön hafa verið notuð með góðum árangri í borgum á borð við Vínarborg og Helsinki, þar sem virk þátttaka hins opinbera hefur stuðlað að stöðugleika á húsnæðismarkaði og dregið úr sveiflum sem bitna verst á tekjulægri hópum.

Félagslegt húsnæði til framtíðar

Við horfum jafnframt til framtíðar með því að greina þörf fyrir fjölbreyttari búsetuform, svo sem samfélagsbúsetu. Slík búseta getur verið hagkvæmur kostur fyrir fólk á ólíkum æviskeiðum og jafnframt stuðlað að aukinni félagslegri tengingu á tímum þar sem einmanaleiki og félagsleg einangrun eru vaxandi samfélagsleg vandamál. Þá var samþykkt að móta heildstæða aðgerðaáætlun um þjónustuíbúðir, enda ljóst að þar er þörfin brýn og mikilvægt að húsnæðið mæti nútímakröfum og raunverulegum þörfum þeirra sem á slíku húsnæði þurfa að halda.

Það er ekki nóg að vera bara með hugmyndafræðina í farteskinu, heldur þurfa að fylgja með raunhæfar lausnir. Reykjavík þarf að vera borg þar sem allir hafa raunverulegt tækifæri til að búa við öryggi og reisn. Við í borgarstjórn berum ábyrgð á að taka ákvarðanir sem miða að því að leysa vandann til lengri tíma - en ekki bara til vinsælda fyrir næstu kosningar. Það er einmitt sú ábyrgð sem þessi samþykkt endurspeglar.

Höfundur er fyrsti varaborgarfulltrúi Flokks fólksins í borgarstjórn og situr m.a. í umhverfis- og skipulagsráði.




Skoðun

Skoðun

Fimm rang­færslur um Byrjendalæsi

Gunnar Gíslason,Guðmundur Engilbertsson,Jenný Gunnbjörnsdóttir ,Ragnheiður Lilja Bjarnadóttir,Rannveig Oddsdóttir,Rúnar Sigþórsson skrifar

Skoðun

Hvað er velsældar­hag­kerfið?

Kristín Vala Ragnarsdóttir,Ásgeir Brynjar Torfason,Brynhildur Davíðsdóttir,Dóra Guðrún Guðmundsdóttir,Silja Elvarsdóttir skrifar

Sjá meira


×