Innlent

Á­fengi efna­fræði­lega skylt lampaolíu, terpen­tínu og bensíni

Jakob Bjarnar skrifar
Ef þú endilega telur nauðsynlegt að fara á fyllerí mæli ég með því að taka lífinu eins rólega og hægt er, helst að vera með hjálm til að draga úr líkum á höfuðáverkum, segir Hjalti Már bráðalæknir meðal annars í pistli sínum.
Ef þú endilega telur nauðsynlegt að fara á fyllerí mæli ég með því að taka lífinu eins rólega og hægt er, helst að vera með hjálm til að draga úr líkum á höfuðáverkum, segir Hjalti Már bráðalæknir meðal annars í pistli sínum. Matt Cardy/Getty Images

Hjalti Már Björnsson bráðalæknir ritar pistil á Vísi þar sem hann lýsir þeim hörmungum sem áfengisneysla hefur leitt yfir mannskepnuna.

„Í starfi mínu sem læknir á bráðamóttökum síðan á síðustu öld sé ég á hverjum degi skuggahliðar áfengisneyslu. Nýlega gerði ég óformlega könnun þar sem læknar og hjúkrunarfræðingar á bráðamóttöku Landspítala voru beðin um að áætla hversu oft þau teldu að áfengi væri undirliggjandi orsakavaldur þess að einstaklingar leiti á bráðamóttöku,“ segir Hjalti Már meðal annars í pistli sínum.

Reyndist mat þeirra vera að í fimmta hverju tilviki sem einstaklingur kemur á bráðamóttöku sé áfengi undirliggjandi orsök.

Áfengi lífrænt leysiefni

Og Hjalti heldur áfram. Þegar spurt var sérstaklega um komur vegna geðrænna einkenna töldu læknar og hjúkrunarfræðingar bráðamóttökunnar áfengi hafa valdið helmingi af öllum komum. Staðfestir þetta enn og aftur hve miklu tjóni áfengisnotkun veldur á heilsu þjóðarinnar.

Pistill Hjalta Más heitir „Fyllerí eru hættuleg“ en segir hann áfengi lífrænt leysiefni, efnafræðilega skylt lampaolíu, terpentínu og bensíni. Þrátt fyrir að áfengi sé eitrað hafi neysla þess hingað til verið merkilega útbreidd í samfélagi okkar.

Þórarinn Tyrfingsson, fyrrverandi yfirlæknir á Vogi, hefur sagt áfengi eitthvert öflugasta eiturlyf sem fyrir finnst og vandséð er að það væri hreinlega leyft í dag. 

Drykkjuboltar ættu að vera með hjálm

Hjalti Már segir að meinlítið sé að nota áfengi í hófi en það sé sannarlega ekki skaðlaust.

„Að nota áfengi í óhófi, að fara á svokallað „fyllerí“, er hins vegar hættuleg iðja. Hugsaðu þig aðeins um, hvað þekkir þú persónulega einstaklinga sem hafa dottið og slasast á fylleríi? Hvað veistu um marga sem hafa orðið fyrir ofbeldi, eða jafnvel beitt ofbeldi tengdu áfengisnotkun? Kannast þú ekki við einhvern sem hefur fundið fyrir alvarlegum kvíða eða þunglyndi í kjölfar mikillar áfengisdrykkju?“

Hjalti Már mælir sterklega gegn því að áfengi sé drukkið í svo miklu magni að ölvun hljótist af.

„Ef þú endilega telur nauðsynlegt að fara á fyllerí mæli ég með því að taka lífinu eins rólega og hægt er, helst að vera með hjálm til að draga úr líkum á höfuðáverkum.“

Hjalti lýkur snörpum pistli sínum á að segja hið forkveðna að öl sé böl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×