Lífið

Fólk velji ein­földustu leiðina og úti­loki for­eldra sína

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Theodór Francis Birgisson segir álíka erjur og þær sem eiga sér stað innan Beckham-fjölskyldunnar finnast hérlendis. Flestir vilji leysa málin en það sé ekki gott að viðra málin fyrir almenningi.
Theodór Francis Birgisson segir álíka erjur og þær sem eiga sér stað innan Beckham-fjölskyldunnar finnast hérlendis. Flestir vilji leysa málin en það sé ekki gott að viðra málin fyrir almenningi. Bylgjan/Getty

Klínískur félagsráðgjafi segir útskúfun barna á foreldrum vegna fjölskyldudeilna ótrúlega algenga. Sumir vilji fara einföldustu leiðina, loka á foreldra og hlaupa frá vandanum. Slíkt komi mest niður á barnabörnum sem fái ekki ömmu og afa. Flestir vilji eiga góð samskipti og fólk eigi alls ekki að opinbera slíkar erjur fyrir alþjóð.

Erjur Beckham-fjölskyldunnar opinberuðustu almenningi í síðustu viku og hafa síðan verið eitt heitasta málið í fjölmiðlum. Frumburðurinn Brooklyn hefur lokað á foreldra sína, Victoriu og David, vegna stjórnsemi þeirra og hegðunar. 

„Þetta er ótrúlega algengt, bara því miður,“ sagði Theodór Francis Birgisson, klínískur félagsráðgjafi, í samtali við Bítið í vikunni um fjölskylduerjur sem leiða til þess að börn loka á foreldra sína. Oft geti það tengst erfðamálum.

„Það virðist vera eins og sumir vilji frekar hlaupa frá vandamálunum heldur en bara horfast í augu við þau. Til skamms tíma getur það verið miklu einfaldara að loka á allt og losa sig við þetta óþægilega í lífinu. En það er ekki framtíðarlausn og ekki skynsöm lausn og hún bitnar síðan á næstu kynslóð og þarnæstu,“ sagði hann.

Börnum veitir ekki af ömmu og afa

Sigrún Júlíusdóttir, prófessor emerita í félagsráðgjöf, sagði í kvöldfréttum Sýnar á mánudag að fólk sé í auknum mæli farið að útskúfa fjölskyldumeðlimi vegna deilna, erfitt sé að leysa úr þeim og þær bitni alltaf á börnunum. Theodór tók undir þau sjónarmið.

„Ég er svo ótrúlega heppinn að eiga ófullkomna foreldra sjálfur. Og svo eiga börnin mín líka ófullkomna foreldra, sem er kannski svolítið leiðinlegra fyrir mig og mína heittelskuðu. Ekkert foreldri er fullkomið og allir foreldrar gera einhver mistök í uppeldi,“ sagði Theodór.

„Það er nú bara þannig í dag að af börnum veitir ekkert af því að eiga afa og ömmu til þess að létta undir með sér í lífinu. Mig minnir að við höfum rætt um það hér í þættinum að rannsóknir sýna okkur að afar og ömmur eru mjög mikilvægir faktorar í uppeldi og, og velferð barnanna.“

Theodór sagði að það gæti vel verið rétt að foreldrar hafi brugðist börnum sínum en spurði hvort það væri þá ekki snjallt að gefa þeim foreldrum tækifæri til að biðjast afsökunar. 

„Í sumum tilfellum hafa einstaklingar, fólk sem ég hef fengið að hjálpa, áttað sig á því að þeir gerðu ekki nógu vel fyrir börnin sín og vilja svolítið kannski fá að bæta það upp með því að vera þá til staðar fyrir barnabörnin,“ sagði Theodór.

„Þá er náttúrulega mjög sárt ef sagt er: „Nei, þitt tækifæri er bara útrunnið og nú loka ég á samskiptin.“ Það er kannski alveg réttlætanleg „hefndaraðgerð“ (og ég er ekki að segja þetta í stríðsham), það getur alveg verið réttlætanlegt að pabbi og mamma hafi klúðrað svo miklu að þau eiga bara engan rétt lengur. En gæti það ekki verið gott fyrir börnin að eiga þarna afa og ömmu sem vilja virkilega standa sig vel?“

„Ég held að í allt of mörgum tilfellum þá velur fólk einföldustu leiðina, sem er bara að loka og hlaupa í burt frá vandanum,“ bætti hann við.

„Ég fæ aldrei pössun fyrir barnabörnin“

Heimir Karlsson, þáttastjórnandi, rifjaði upp hvernig ömmur og afar bjuggu oft inni á heimilum áður fyrr og sáu um stóran hluta uppeldisins. Það sé ekki lengur svo, ömmur og afar séu betur á sig komin í dag en áður og vilji jafnvel fá að lifa sínu lífi frekar en að vera barnapíur.

Ættu ömmur og afar ekki að segja: „aA sjálfsögðu erum við hér til staðar, jafnvel þó við ætlum að reyna að lifa okkar lífi líka“?

„Þarna er kúnstin að ná einhverju jafnvægi. Ég hef líka fengið að vinna með fólki sem hefur lagt líf sitt algjörlega til hliðar til þess að vera til staðar fyrir barnabörnin og síðan barnabarnabörnin og það er heldur ekkert gott. Það þarf að vera jafnvægi á þessu því að fólk sem er búið með sinn starfsaldur, búið að standa sig og fórna öllu fyrir að koma börnunum sínum á legg, það fólk þarf líka að fá að eiga einhvers konar líf fyrir sig sjálft,“ sagði Theodór.

„Það þarf að geta stundað sín áhugamál, farið í sín ferðalög. En það þarf líka bara jafnvægi. Ég ætla að sinna sjálfum mér, ég ætla líka að sinna börnunum mínum, barnabörnum og jafnvel barnabarnabörnum.“

En eru þessi mál oft grunnurinn að rifrildum í fjölskyldum? 

„Ótrúlega oft og þá kemur: „Ég fæ aldrei pössun fyrir barnabörnin. Og þetta var alveg eins áður, pabbi og mamma unnu bara út í eitt og við skiptum aldrei máli. Það er bara greinilega komin sama stefna“,“ sagði Theodór.

Niðurstaðan þegar Theodór sest niður með foreldrum og jafnvel öfum og ömmum sé alltaf sú sama: „Það vilja allir heilbrigð tengsl. Það vilja allir fá að eiga samskipti við foreldra sína og að börnin eigi samskipti við afa og ömmu. Og afar og ömmur vilja fá að taka þátt í lífi barnabarnanna.“

En það þarf ansi mikið að ganga á þannig að börn loki á foreldra sína. 

„Það er rétt en síðan hefur það smitandi áhrif. Ef einhver einn í vinahópnum hefur kannski farið óvenju illa út úr hlutum, þá getur það  stigmagnast í vinahóp þannig að allir í vinahópnum verða komnir á þá skoðun að foreldrar ættu bara að skammast sín og fá engin tækifæri til þess að gera betur,“ sagði Theodór.

Sum sambönd ekki hægt að laga

Beckham-deilurnar bæta við nýju lagi ofan á slíkar deilur. Þær sýni hvernig fólk geti opnað sig um fjölskylduerjur sínar á samfélagsmiðlum og gert hreint fyrir sínum dyrum. Theodór sagði slíkt hræðilega hugmynd.

„Þegar við komum að því, þá myndi ég ráðleggja öllum að gera ekki hreint fyrir sínum dyrum fyrir framan alþjóð. Það er virkilega ógáfuleg leið. Þetta eru svo viðkvæm mál. Og svo hefur maðurinn í eðli sínu þá tilhneigingu að vera sammála sjálfum sér og hafa á réttu að standa. Það eru bara alltaf fleiri en ein hlið á málinu,“ sagði Theodór.

„Þannig að ef þú vilt opna þig, hittu fagaðila. Fáðu einhvern óháðan til þess að setjast niður með þér og speglaðu það. Því að það að birta opinberlega getur meitt alla aðila miklu, miklu meira en fólk gerir sér grein fyrir.“

En nú geta erjurnar rist djúpt að það verður erfitt að fá foreldra og börnin eða barnið til þess að setjast niður með sérfræðingum og ræða málin. Hvað er hægt að gera til þess að fá fólk til þess að koma og setjast niður og ræða málin ef það er ekki til í það? 

„Ef við getum fengið fólk til að sjá lokaniðurstöðuna - hver er lokaniðurstaðan og hver vil ég að sé lokaniðurstaðan?  - þá held ég að flestir myndu segja lokaniðurstöðuna vera betri ef  fjölskyldur geta staðið saman og umborið hvort annað gegnum alls konar hluti,“ sagði Theodór.

„Það er alveg í sumum tilfellum þannig að það er ekki hægt að laga þessa hluti og stundum hafa foreldrar og eða jafnvel börn, fullorðin börn, hagað sér þannig að það er ekkert hægt að laga. En það er í miklu, miklu færri tilfellum. Yfirleitt er hægt að laga þetta ef fólk sest niður og er tilbúið að tala saman,“ bætti hann við.

„Ég öfunda ekki þessa fjölskyldu og allir peningar heims munu aldrei leysa þessa deilu. En svona átök eru bara í okkar samfélagi hérna heima á Íslandi alltof algeng,“ sagði Theodór svo að lokum um Beckham-fjölskylduna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.