Innlent

Launin lækkuð um 97 prósent en ekki af­numin

Árni Sæberg skrifar
Kristrún vill svo gott sem afnema handhafalaunin, sem hún, Þórunn Sveinbjarnardóttir og Benedikt Bogason njóta.
Kristrún vill svo gott sem afnema handhafalaunin, sem hún, Þórunn Sveinbjarnardóttir og Benedikt Bogason njóta. Vísir/Anton Brink/Vilhelm

Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra mælti í dag fyrir frumvarpi um breytingu á lögum um laun forseta Íslands og lögum um Stjórnarráð Íslands. Með frumvarpinu er lögð til veruleg lækkun launa handhafa forsetavalds, úr samtals um 10 milljónum á ári niður í fasta greiðslu upp á 300 þúsund krónur. Greiðslurnar dragast þannig saman um 97 prósent. Til stóð að afnema launin alfarið en til þess hefði þurft að breyta stjórnarskrá.

Í tilkynningu þess efnis á vef Stjórnarráðsins segir að samkvæmt stjórnarskrá fari forsætisráðherra, forseti Alþingis og forseti Hæstaréttar með forsetavald um stundarsakir þegar forseti getur ekki gegnt störfum um sinn. Breyta þyrfti stjórnarskrá til að afnema greiðslurnar að fullu en í frumvarpi forsætisráðherra sé lögð til hófleg þóknun til handhafa.

Í mars síðastliðnum var fjallað um niðurstöður hagræðingarhóps ríkisstjórnarinnar, sem boðaði mögulega hagræðingu upp á að minnsta kosti sjötíu milljarða króna á fjórum árum. Þá sagði Kristrún Frostadóttir að hún hefði þegar ákveðið að fallast á tillögu um afnám handhafalaun vegna forsetavalds.

Átta þúsund á mánuði

Í tilkynningunni segir að greiðslur til handhafanna þriggja hafi undanfarin ár numið samanlagt um tíu milljónum króna að meðaltali á ári, það er að rúmar þrjár milljónir króna hafi fallið í skaut hvers og eins á ársgrundvelli. Með frumvarpi forsætisráðherra sé lagt til að greiðslur á ári lækki í 300 þúsund krónur samanlagt á ári, það er 100 þúsund krónur á mann.

Mánaðarlega myndu greiðslur á hvern handhafa þannig lækka úr tæplega 300 þúsund krónum niður í rúmlega átta þúsund krónur. Þá sé ekki gert ráð fyrir að heildarfjárhæð handhafalauna á ári taki breytingum í hlutfalli við verðlagsbreytingar. Með lækkuninni verði handhafagreiðslur fremur táknrænar en tengdar við vinnuframlag.

Þegar með afar góð kjör

„Lækkun á greiðslum til handhafa forsetavalds er mikilvæg og táknræn aðgerð. Ríkisstjórnin hefur frá upphafi lagt ríka áherslu á hagræðingu í ríkisrekstri. Við hófum kjörtímabilið á að leggja niður eitt ráðuneyti og höfum lagt mikið upp úr sparnaði í yfirbyggingu á öllum vígstöðvum. Á tímabili fjármálaáætlunar munum við skila hagræðingu upp á 107 milljarða. Tillaga mín í dag um lækkun handhafalauna er einmitt í samræmi við þessar áherslur ríkisstjórnarinnar. Þetta eru tíu milljónir sem runnið hafa til þriggja einstaklinga á hverju ári umfram almenn launakjör þeirra, sem eru afar góð. Þó að þetta séu ekki háar upphæðir í stóra samhenginu skiptir miklu máli að æðsta stjórn líti inn á við þegar kemur að hagræðingu,“ er haft eftir Kristrúnu í tilkynningu.

Loks segir að með frumvarpi forsætisráðherra séu einnig lagðar til breytingar til að skýra betur hlutverk forsetaritara, heimila forseta að ráða sér aðstoðarmann án þess þó að verið sé að fjölga starfsmönnum forsetaembættisins. 

Þá sé frumvarpinu ætlað að skapa skýrari forsendur fyrir forystu- og samræmingarhlutverk forsætisráðherra varðandi öryggi æðstu stjórnar ríkisins, staðgöngu ráðherra og rafrænar undirritanir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×