Út fyrir normið - Heilinn er þreytandi forstjóri
Hvað gerist ef að fólk tekur eftir því að þú passar ekki inn? Þú ert ekki eins og allir aðrir. Þú nærð ekki að róa þig niður í jógatímanum. Þig langar að brjóta eitthvað í hugleiðslu, óþolinmæðin og ofhugsanirnar taka stjórn. „Af hverju get ég ekki slakað á hérna og gefið þessu séns?“ ómar kannski í höfðinu og þú ákveður að þetta sé ekki fyrir þig. Þú munir finna hamingjuna annarsstaðar. Það sem getur gerst er að heilinn skannar umhverfið og tekur eftir félagslegri hættu. „Varúð! Þú ert ekki að passa hérna inn!! Yfirgefðu svæðið. Ekki mæta aftur. Bakkaðu út úr aðstæðum, núna!!“ Heilinn hefur þá stoltur tekið við forstjórahlutverki í þínu lífi. En málið er, að heilinn er þreytandi forstjóri. Alltaf hræddur. Alltaf að skoða hvað er mögulega kannski að fara úrskeiðis. Hann styðst ekki alltaf við rök. Hann vill bara lifa af og taka sem fæstar áhættur. Við skulum framkvæma lífið öðruvísi héðan í frá, taka sjálf við forstjórahlutverkinu. Rökræða við heilann. Setjum okkur öðruvísi markmið sem hjálpa okkur raunverulega að líða vel með sjálfum okkur og göngum yfirvegað í gegnum næsta ár vopnuð glerharðri vissu. Út fyrir Normið þættir desembermánaðar snúast um nákvæmlega þetta. Um er að ræða WORKSHOP 1 – UPPGJÖR 2020, og WORKSHOP 2 – ÖÐRUVÍSI MARKMIÐ. Lærum af þessu stórmerkilega ári sem er að líða, en tökum ekki með okkur þyngslin og erfiðleikana inn í næsta ár. Förum Út fyrir Normið.