Íslenski boltinn

Umfjöllun, viðtöl og myndir Fram - Stjarnan 3-3 | Fram bikarmeistari eftir vító

Guðmundur Marinó Ingvarsson á Laugardalsvelli skrifar
Fram tryggði sér bikarmeistaratitilinn með sigri á Stjörnunni eftir vítaspyrnukeppni í Laugardalnum í dag. Staðan að loknum venjulegum leiktíma og framlengingu var 3-3.

Anton Brink, ljósmyndari Vísis og Fréttablaðsins á bikarúrslitaleiknum í Laugardalnum í dag, tók þessar skemmtilegu myndir sem má sjá hér fyrir ofan.

Stjarnan fékk sannkallaða óskabyrjun þegar Halldór Orri Björnsson kom liðinu yfir á 5. mínútu. Stjarnan var sterkari aðilinn í fyrri hálfleik en Fram skoraði að því er virtist löglegt mark þegar Ingvar Jónsson varði skalla sem Jordan Halsman átti á 15. mínútu inni í markinu.

Veigar Páll Gunnarsson kom Stjörnunni í 2-0 sex mínútum fyrir leikhlé og virtist Fram ekki eiga mikla möguleika úr því.

Það var þó ekki raunin því Fram kom mjög ákveðið út úr hálfleiknum og Hólmbert Aron Friðjónsson minnkaði muninn á 7. mínútu seinni hálfleiks. Tólf mínútum síðar jafnaði Almarr Ormarsson metin og var leikurinn orðinn gal opinn.

Átta mínútum síðar eða á 72. mínútu kom Halldór Orri Björnsson Stjörnunni yfir á ný og virtist tryggja Stjörnunni sigurinn því heldur dró af Fram við markið.

Fram náði þó að rífa sig upp í tæka tíð og jafnaði Almarr Ormarsson metin tveimur mínútum fyrir lok venjulegs leiktíma.

Ekkert var skorað í framlengingunni og því þurfti að grípa til vítaspyrnukeppni. Þar var Ögmundur Kristinsson hetja Fram en hann varði tvær síðustu spyrnur Stjörnunnar og Fram því bikarmeistari í fyrsta sinn frá því 1989, á fyrsta ári Ríkharðs Daðasonar þjálfara Fram sem leikmanns.

Ögmundur: Menn skjóta oftast á sama staðinn„Við spiluðum illa í fyrri hálfleik og vorum sanngjarnt undir 2-0 í hálfleik. Við töluðum saman í hálfleik og peppuðum okkur upp og sýndum okkar rétta andlit í seinni hálfleik,“ sagði Ögmundur Kristinsson markvörður Fram og hetja liðsins í vítaspyrnukeppninni.

„Ég var búinn að skoða og fylgjast með hvar þessi menn skjóta í vítum. Það er oftast sami staðurinn sem menn skjóta á. Maður mætir undirbúinn og það virkaði í dag.

„Þetta var örugglega frábær skemmtun fyrir áhorfendur. Ég vil þakka öllum þeim sem mættu á völlinn fyrir dyggan stuðning,“ sagði Ögmundur sem fékk högg í punginn rétt fyrir leikslok og þurfti að harka það af sér.

„Þetta voru engin meiðsli. Ég fékk hann bara á viðkvæman stað og maður verður að harka það af sér. Ég vona að það verði í lagi með hann á morgun.

„Við vissum alveg að við gætum klárað þetta. Staðan í deildinni skiptir engu máli. Það er ekki eins og það sé einhver saga með þeim, það er frekar með okkur,“ sagði Ögmundur.

Almarr: Ekki eins og þeir séu með einhverja sögu„Við gáfumst ekki upp þrátt fyrir að lenda 2-0 undir. Að fara 2-0 inn í hálfleik er hrikalega erfitt en við börðumst eins og ljón,“ sagði Almarr Ormarsson sem skoraði tvö mörk fyrir Fram og lagði upp það þriðja.

„Ég veit ekki hvort þetta var víti í fyrsta markinu og mér fannst við skora mark í fyrri hálfleik sem var ekki dæmt. Við héldum áfram og sýndum hvað í okkur býr.

„Við höfum ekki verið duglegir við þetta í sumar en við höfum átt það til undanfarin ár að koma til baka og við gáfum allt í þetta í dag og uppskárum.

„Það var næstum því erfiðara að lenda 3-2 undir en 2-0 af því að við vorum búnir að jafna en ég er svo ánægður með strákana að halda áfram og hafa trú á þessu. Það er ekki auðvelt í svona leik. Hálft liðið var byrjað að haltra það sprakk pungurinn á Ömma (Ögmundi markverði).

„Hálft liðið var á öðrum fæti en við hoppuðum á öðrum fæti og kláruðum þetta þannig. Það voru kannski frekar þeir sem reyndu að skora í framlengingunni við vorum farnir að sjá að vítaspyrnukeppni væri betra fyrir okkur.

„Sem betur fer ákvað Ömmi að verja sína fyrstu vítaspyrnu á ævinni. Það var ágæt tímasetning á því.

„Ég heyrði einhvers staðar út undan mér að Stjarnan hafi fagnað að fá okkur í úrslit en ekki Breiðablik. Ég hlæ að svoleiðis sögum. Það var mikið talað um að þeir væru miklu betra lið og með miklu betri áhorfendur og eitthvað svona kjaftæði og að sagan væri ekki með okkur. Það er ekki eins og þeir séu með einhverja sögu.

„Þetta var hörkuleikur og tvö frábær lið. Þetta hefði getað dottið þeirra megin, við vorum ekki mikið betri, alls ekki en mér fannst við eiga þetta skilið.

„Loksins landar liðið titli aftur. Það var orðið allt of langt síðan síðast og vonandi getur klúbburinn notað það áfram og byggt á því. Evrópukeppni á næsta ári og fyrsti titillinn lengi, það hjálpar,“ sagði Almarr.

Logi: Hættum að gera það sem kom okkur í forystu„Ég vissi að þetta væri langt komið með því fororði að menn haldi áfram að gera það sem kom okkur í þessa forystu en þegar við hættum því bjóðum við hættunni heim,“ sagði Logi Ólafsson þjálfari Stjörnunnar

„Þetta er mjög dapurt að vera kominn með leikinn í hendurnar og tapa honum. Fyrst og fremst fer það úrskeiðis að við hættum að gera það sem gengur og við hættum að gera það sem kemur okkur í þessa forystu og þeir ganga á lagið,“ sagði Logi en Stjarnan bíður enn eftir sínum fyrsta titli í meistaraflokki karla í fótbolta.

„Liðið er skrefi nær. Menn þurfa að taka nokkur skref á þroska brautinni til að verða gott lið og það tekur stundum tíma og Framararnir eru með söguna með sér og Stjarnan ekki en þar fyrir þá áttum við að klára þetta í dag.

„Við höfum verið bestir þegar mest er undir. Í leikjunum á móti FH og KR hafa menn risið upp og gert góða hluti og það stefndi allt í það í dag en því miður þá sofnum við á verðinum,“ sagði Logi Ólafsson.

Mynd/Anton



Fleiri fréttir

Sjá meira


×