Körfubolti

Ná Stólarnir fyrstu Suðurnesjaþrennunni í tæp 23 ár?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pétur Rúnar Birgisson.
Pétur Rúnar Birgisson. Vísir/Valli
Tindastólsmenn heimsækja Grindvíkinga í kvöld í lokaleik áttundu umferðar Dominos-deildar karla í körfubolta en þetta verður fimmti Mánudagsleikurinn í vetur sem verður sendur út í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

Leikurinn fer fram í Röstinni í Grindavík og hefst hann klukkan 19.15. Sjónvarpsútsending Stöðvar 2 Sport hefst klukkan 19.00.

Tindastóll hefur unnið sex af fyrstu sjö leikjum tímabilsins og þar á meðal 11 stiga sigur á Njarðvík (86-75) og 13 stiga sigur á Keflavík (97-74). Stólarnir eiga því möguleika á því að ná Suðurnesjaþrennunni í kvöld.

Það þarf að fara tæp 23 ár aftur í tímann til að finna Suðurnesjaþrennu hjá Tindastól á einu tímabili í úrvalsdeild karla.

Stólarnir unnu síðast Suðurnesjaliðin þrjú í einni röð í febrúar 1992. Tindastóll vann þá Keflavík 5. febrúar (74-72, heima), Grindavík 9. febrúar (97-94, úti) og loks Njarðvík 28. febrúar (83-81, úti).

Frá því að Stólarnir náðu þessari þrennu fyrir tæpum 23 árum hefur liðið aðeins unnið 28 af 112 deildarleikjum sínum á móti Suðurnesjaliðunum þremur og þá eru meðtaldir sigurleikirnir tveir fyrr í vetur.

Tindastóll fékk tvö tækifæri til að ná Suðurnesjaþrennunni tímabilið 1999-2000 en tapaði þriðja leiknum í bæði skiptin.

Fyrir jól unnu Stólarnir Keflavík (93-79) og Grindavík (97-77) en töpuðu svo á móti Njarðvík (84-101). Eftir jól unnu Stólarnir Njarðvík (90-75) og Keflavík (80-67) en töpuðu svo á móti Grindavík (80-86).




Fleiri fréttir

Sjá meira


×