Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: Víkingur R. - Breiðablik 2-3 | Blikar komnir á blað eftir langþráðan sigur

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Hrvoje Tokic skoraði sitt fyrsta mark fyrir Breiðablik í kvöld.
Hrvoje Tokic skoraði sitt fyrsta mark fyrir Breiðablik í kvöld. vísir/ernir
Leikmenn Breiðabliks gerðu sér góða ferð í Fossvoginn í kvöld þegar liðið lagði Víking R. í víkinni, 1-3. Liðið er því loksins komið á blað í deildinni eftir töp í fyrstu þremur leikjunum.

Leikurinn var í járnum í fyrri hálfleik þrátt fyrir að Blikar kæmust yfir snemma leiks með fyrsta marki sumarsins frá Hrvoje Tokic. Gísli Eyjólfsson splúndraði vörn Víkings með laglegri sendingu á Tokic sem kláraði færið sitt vel.

Liðin skiptust á að sækja í fyrri hálfleik og fengu ágætis færi til þess að skora en flest skot Víkinga rötuðu beint á Gunnleif Gunnleifsson í marki gestanna.

Heimamenn komu mun ákveðnari til leiks í síðari hálfleik og jöfnuðu leikinn á 51. mínútu með skallamarki frá Gunnlaugi Fannari Guðmundssyni eftir hornspyrnu. Boltinn fór þó ekki langt yfir línunna áður en Gunnleifur í marki sópaði honum burt. Ívar Örn Jónsson, dómari leiksins, dæmdi engu að síður mark.

Víkingum mistókst að láta kné fylgja kviði og Blikar gengu á lagið. Davíð Kristján Ólafsson kom Blikum yfir með ansi laglegu marki. Tók hann boltann á lofti í teignum og skoraði viðstöðulaust í hægra hornið.

Michee Efee gerði svo út um leikinn á 71. mínútu þegar hann skoraði eftir hornspyrnu. Dofri Snorrason skoraði sáramótamark í uppbótaríma fyrir Víkinga en Blikar fara heim með stigin þrjú.

Liðunum stýra bráðabirgðaþjálfarar eftir að þjálfarar liðanna tveggja ýmist voru reknir eða sögðu upp störfum. Því má segja að Sigurður Víðisson, þjálfari Blika, hafi haft betur í slag bráðabirgðaþjálfaranna, gegn Dragan Kazic, þjálfara Víkings.

Af hverju vann Breiðablik?

Föstu leikatriðin skildu að á milli liðanna hér í kvöld í afar jöfnum leik þar sem jafntefli hefði ef til vill verið sanngjörn úrslit. Blikar gerðu út um leikinn á nokkurra mínútna kafla í síðari hálfleik með tveimur mörkum eftir föst leikatriði þar sem leikmenn Víkings voru sofandi.

Blikar gerðu einnig vel í að vinna sig aftur í leikinn í seinni hálfleik eftir jöfnunarmark Víkings þar heimamenn voru ívið betri eftir að Dragan, þjálfari Víkinga, skipti Milosi Ozegovic inn fyrir Muhammed Mert í hálfleik. Við það efldist leikur heimamanna en Blikar sýndu mikinn karakter með því að bogna ekki og sækja mörkin sem þurfti til að ná í stigin þrjú.

Þá geta Blikar einnig verið ánægðir með það að framherjar Víkinga reimuðu ekki á sig markaskó í dag og voru mest í því að skjóta beint á Gunnleif í marki Blika, þrátt fyrir ágæt færi.



Hverjir stóðu upp úr?

Hjá Blikum steig Hrvoje Tokic loksins upp. Hann var atkvæðamikill í framlínu Blika og skoraði afar laglegt mark þar sem hann setti boltann snyrtilega framhjá Kristóferi Karli Jenssyni í marki Víkinga úr þröngu færi. Hann tók leikmenn til sín og opnaði pláss fyrir Höskuld Ólafsson og Martin Lund Pedersen sem áttu sína bestu leiki á tímabilinu.

Gísli Eyjólfsson var einnig afar öflugur á miðjunni hjá gestunum og stýrði ferðinni í fyrri hálfleik. Heimamenn þurftu að enda breyta til í hálfleik og kom Ozegovic inn á, til þess að stöðva miðjuspil Blika. Gekk það afar vel lengst af og var Ozegovic líklega besti leikmaður heimamanna þrátt fyrir að spila aðeins í 45 mínútur.

Ívar Örn Jónsson lagði einnig upp bæði mörk Víkinga sem komu eftir hornspyrnur. Það veit á vel fyrir heimamenn ef Aukaspyrnu-Ívar er aftur mættur til leiks.

Hvað gekk vel?

Í raun átti bæði lið ágætan dag ef frá er talinn varnarleikurinn í föstu leikatriðinum. Bæði lið áttu klárlega skilið eitthvað út úr þessum leik. Víkingar sköpuðu sér góð færi og á góðum degi hefðu þeir skorað fleiri mörk. Allar aðgerðir Blika litu einnig mun betur út í þessum leik en í undanförnum leikjum. Voru þeir ákveðnari í flest öllum aðgerðum og sást það vel.

Hvað gerist næst?

Stóra spurningin er auðvitað hverjir taka við þessum liðum sem eru bæði án fasts þjálfara. Víkingar eru með þrjú stig eftir fjóra leiki og fara næst til Akureyrar þar sem þeir mæta KA í erfiðum leik. Vinir frá Ólafsvík mæta hins vegar Blikum i Kópavogi. Hvort þjálfararnir sem stýrðu liðunum hér í kvöld verði áfram í starfi, verður að koma í ljós.

Dragan Kazic hefur komið víða við á Íslandi og var aðstoðarþjálfari hjá ÍBV um tíma.Vísir/Vilhelm

Bráðabirgðaþjálfari Víkings vill taka við liðinu

Dragan Kazic, bráðabirgðaþjálfari Víkings R., hefur áhuga á því að taka við liðinu eftir að Milos Milojevic sagði upp störfum fyrir helgi. Hann segist þekkja leikmennina vel en það sé stjórnarinnar að ákveða næstu skref.

„Að sjálfsögðu. Af hverju ekki?“ sagði Dragan í samtali við Vísi eftir tap liðsins gegn Breiðabliki í Pepsi-deild karla í kvöld aðspurður hvort hann myndi vilja taka við liðinu.

„Ég þekki leikmennina, ég hef verið með þeim frá því í janúar. Æfingarnar eru góðar, góður agi,“ sagði hann gekk til liðs við þjálfarateymi Milosar fyrr á árinu. Hann reiknar með að stjórnin ræði við þá þjálfara sem komi til greina og segir að auðvitað sé það hennar að ákveða hver taki við, hann sé hins vegar reiðubúinn þegar kallið kemur.

Víkingur tapaði fyrir Blikum í jöfnum leik þar sem föst leikatriði voru í aðalhlutverki en öll mörk utan þess fyrsta komu úr föstum leikatriðinum í leik sem endaði 2-3. Dragan var ekki ánægður með frammistöði sinna leikmanna þegar kom að því að verjast föstu leikatriðinum.

„Ég er ekki viss um að við séum að standa okkur vel í mörkunum sem við fáum á okkur. Þriðja markið var mjög ódýrt,“ sagði Dragan sem var þó ánægður með frammistöðu sinna manna, sérstaklega í seinni hálfleik, þegar liðið náði að jafna.

„Miðjumennirnir okkar voru mestmegnis í sóknarstöðu í fyrri hálfleik en í seinni hálfleik var spilamennskan mun betri. Þá settum við Milos Ozegovic inn sem er varnarsinnaðri og við erum mjög ánægðrir með seinni hálfleikinn. Við skorum tvö mörk, við sköpum mikið að færum,“ sagði Dragan.

„Í dag reyndu þeir allt og ég er ánægður hugarfarið þeirra. Þeir hlupu mikið, börðust mikið en því miður er ég óánægður með niðurstöðuna en við reynum að laga hana fyrir næsta leik.“

Blikar eru komnir upp úr fallsæti.vísir/ernir

Sigurður: Framtíðin verður að koma í ljós

„Ég er rosalega ánægður með liðið og frammistöðuna í dag,“ sagði Sigurður Víðisson, þjálfari Blika, eftir sigurinn í dag. Hann vill þó ekkert segja um hvort hann muni halda áfram með liðið eða ekki.

Blikar voru yfir í hálfleik en heimamenn komu sterkir inn í seinni hálfleik, skoruðu jöfnunarmark og náðu að stífla miðjuspil Blika. Það voru svo föstu leikatriði Blika sem gerðu útslagið og gerði það að verkum að liðið er loksins komið á blað, eftir þrjá tapleiki í röð.

„Þeir komu fyrsta korterið og voru betri í seinni hálfleik. Við vorum í vandræðum þegar jöfnunarmarkið kemur og duttum aðeins niður. Svo komum við inn aftur og skoruðum flott mörk. Fengum á okkur mörk úr föstum leikatriðum sem er alveg ferlegt,“ sagði Sigurður.

Hann segir að mótið sé rétt að byrja og virðist hann ekki hafa miklar áhyggjur af uppskerunni hingað til. Það muni margt breytast þegar uppi er staðið. Hann var afar ánægður með spilamennsku sinna minna og þá sérstaklega fyrsta markið sem var klassískt Blikamark.

„Fyrsta markið var hins vegar frábært. Við spiluðum í gegnum þá eins og við erum bestir í,“ Það mark skoraði Hrvoje Tokic sem hefur ekki verið á markaskónum hingað. Sigurður að það sé afar gott að fá hann á blað. „Heldur betur. Hann er líka ánægður kallinn inn í klefa núna.“

Eftir fyrsta leik Sigurðar, tap gegn Stjörnunni, var ákveðið að hann myndi stýra næstu tveimur leikjum sem nú eru búnir. En hvert er framhaldið hjá honum og Blikum.

„Nú fer ég á fund í kvöld eða á morgun og við ræðum þetta eitthvað. Planið var svona og við klárum það,“ sagði Sigurður.

Þú ert klár í að halda áfram?

„Það kemur bara í ljós.“

Langar þig til þess að vera aðalþjálfari hérna?

„Það kemur bara í ljós. Ég er uppalinn Bliki og þetta er heiður fyrir mig.“

Víkingar hafa tapað þremur leikjum í röð.vísir/ernir
Víkingur R.



(4-3-3): Kristófer Karl Jensson 5 - Ívar Örn Jónsson 7, Halldór Smári Sigurðsson 6 (F), Alan Alexander Lowing 6, Gunnlaugur Fannar Guðmundsson 6 (77. Erlingur Agnarsson) - Dofri Snorrason 6, Arnþór Ingi Kristinsson 5, Alex Freyr Hilmarsson 5 - Vladimir Tufegdzic 5, Muhammed Mert 3 (45. Milos Ozegovic 7), Ivica Jovanovic 5 (91. Ragnar Bragi Sveinsson).

Breiðablik

(4-3-3):
Gunnleifur Gunnleifsson 7 - Guðmundur Friðriksson 6, Michee Efete 7, Damir Muminovic 6 , Davíð Kristján Ólafsson 7 (87. Kolbeinn Þórðarson) - Andri Rafn Yeoman 6, Gísli Eyjólfsson 7 (77. Ernir Bjarnason), Arnþór Ari Atlason 6 - Höskuldur Gunnlaugsson 6, Martin Lund Pedersen 7, Hrvoje Tokic 7 (83. Aron Bjarnason).

 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira