Fjárfestar búast við yfirtöku
Bréf í breska bankanum Singer and Friedlander hækkuðu um tíu prósent í gær. Kaup Burðaráss í félaginu hafa gefið væntingum um yfirtöku KB banka byr undir báða vængi. Geri KB banki yfirtökutilboð, má búast við því að það verði yfir núverandi markaðsgengi. Gengi bréfa Singer and Friedlander hækkaði einnig um tíu prósent í fyrradag. Verðmæti bankans hefur aukist um rúm 20 prósent á tveimur dögum. Í breskum fjölmiðlum og hjá greiningardeildum bankanna er talið líklegast að kaup Burðaráss í bankanum sé fjárfesting til skamms tíma. Burðarás myndi þá ávaxta vel fjárfestingu sína til skamms tíma. Fari svo á hinn bóginn að KB banki ráðist ekki í yfirtöku, er það mat sérfræðinga að breski bankinn geti reynst ágætis langtímafjárfesting. Tapáhætta Burðaráss af þessari fjárfestingu sé því fremur lítil. Miklar líkur eru þó á því að KB banki ráðist í yfirtöku. KB banki hefur góða möguleika á að fjármagna kaup á þeim rúmu 80 prósentum sem út af standa.