Erlent

Kosningaeftirlit í Bandaríkjunum

Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu hefur ákveðið að vera með kosningaeftirlit í bandarísku forsetakosningunum. Íslensk kona er talsmaður kosningaeftirlitsins. Fjölmargir þingmenn í Bandaríkjunum fóru þess á leit við Sameinuðu þjóðirnar að þær sendu eftirlit til Bandaríkjanna en fengu þau svör að það yrðu að vera bandarísk stjórnvöld sem færu fram á slíkt. Heitar umræður urðu um málið en niðurstaðan varð sú að ÖSE færi með eftirlit. Urður Gunnarsdóttir er talsmaður kosningaeftirlits ÖSE og hún segir að stofnuninni hafi fundist ástæða til að fara á staðinn eftir að hópur eftirlitsmanna skrifaði stutta skýrslu um forsetakosningarnar árið 2000. Flestir muna eflaust eftir því að nokkrar vikur tók að úrskurða sigurvegara kosninganna vegna atkvæða í Flórída. Margir töldu að Repúblikanaflokkur Georges Bush, og bróðir hans sem er ríkisstjóri í Flórída, hefðu kerfisbundið misnotað kosningaaðferðir til að útiloka atkvæði frá minnihlutahópum. ÖSE segir hins vegar að ónæg þjálfun í tengslum við fjölmörg kosningakerfi hafi ef til vill verið helsta vandamálið í Flórída og annars staðar. Urður segir að ýmislegt hafi verið gert til batnaðar síðan í síðustu kosningum en þó sé margt sem eigi eftir að lagfæra. Hægt er að hlusta á viðtal við Urði úr hádegisfréttum Bylgjunnar með því að smella á hlekkinn hér að neðan.  



Fleiri fréttir

Sjá meira


×