Erlent

Sharon beið lægri hlut

Ariel Sharon, forsætisráðherra Ísraels, beið lægri hlut í atkvæðagreiðslu Likud-flokksins í gær en flokksmenn höfnuðu því að leyfa Sharon að mynda samsteypustjórn með Verkamannaflokknum. Þetta er áfall fyrir Sharon og gæti hindrað framgang áætlana um brotthvarf frá Gasa-ströndinni. Harðlínumenn í Likud-flokknum leggjast eindregið gegn þeim hugmyndum og tókst þeim að fá fimmtíu og átta prósent þeirra sem greiddu atkvæði í lið með sér. Meirihluti Ísraelsmanna er hins vegar hlynntur hugmyndum um brotthvarf. Sharon kveðst ekki ætla að gefast upp og hefur gefið í skyn að hann kunni að ganga gegn vilja flokksmanna og mynda samsteypustjórn, þrátt fyrir úrslit atkvæðagreiðslunnar. Þingmenn Verkamannaflokksins sögðu niðurstöðuna alvarlega og hafa ísraelskir fjölmiðlar eftir þeim að kosningar kunni fyrir vikið að vera á næsta leiti.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×