Erlent

Skammaður fyrir kveðjuna

Breski utanríkisráðherrann Jack Straw sætir harðri gagnrýni heima fyrir sökum þess að hann tók í hendina á Robert Mugabe, forseta Simbabve, í móttöku í tengslum við þing Sameinuðu þjóðanna í síðustu viku. Mugabe hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir mannréttindabrot og hafa Bretar verið framarlega í flokki þeirra sem krefjast umbóta í Simbabve. "Þetta eru hneykslanleg svik við íbúa Simbabve, sem þjást af völdum blóði drifinnar ógnarstjórnar Mugabes," sagði Michael Ancram, talsmaður Íhaldsflokksins í utanríkismálum. Straw afsakaði handsalið hins vegar með þeim orðum að hann hefði ekki átt von á að hitta Mugabe. "Þar sem var nokkuð dimmt í horninu sem mér var þrýst að, var það almenn kurteisi að taka í hendina á þeim sem ég hitti. Það var ekki fyrr en þá sem ég áttaði mig á að þetta væri Mugabe. En þó Simbabve og Bretland deili sín á milli þýðir það ekki að maður þurfi að vera dónalegur."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×