Innlent

Vilja allt sorp til Þorlákshafnar

"Menn hafa tekið mjög vel í þessar hugmyndir og þær eru til skoðunar uppi á borðinu núna," sagði Ólafur Áki Ragnarsson bæjarstjóri í Ölfusi, sem athugar málið ásamt Alfreð Þorsteinssyni stjórnarformanni Sorpu, svo og Ögmund Einarsson framkvæmdastjóra fyrirtækisins. Þessar hugmyndir eru liður í framtíðarskipulagi sorpmála á Suðurlandi. Ágreiningur hefur verið um starfsemi Sorpstöðvar Suðurlands, en samkomulag til lausnar honum verður kynnt fulltrúum aðildarsveitarfélaganna í dag. Ólafur Áki sagði, að menn væri farnir að horfa á málið í samhengi eftir þetta. "Höfuðborgarsvæðið hefur ekki endalaust pláss í Álfsnesi," sagði hann. "Við höfum bent á að við höfum gott svæði fyrir vestan Þorlákshöfn, þar sem gaman væri að gera stöð sem myndi uppfylla nútímakröfur um eyðingu sorps. Við höfum áhuga á að þetta verði í samstarfi við Landgræðsluna og Garðyrkjuskóla ríkisins í Ölfusi. Við höfum rætt þetta við yfirmenn sorpmála í Reykjavík og menn eru að skoða þennan möguleika." Ólafur Áki sagði að þessi breyting gæti orðið á næstu 4 - 6 árum. Þá væri ekki verið að tala um að urða allt sorp af þessu stóra svæði, heldur aðeins örlítinn hluta þess. Öðru yrði eytt eða það endurunnið. Hann sagði enn fremur að sorpurðun Sorpstöðvar Suðurlands í Kirkjuferjuhjáleigu yrði þar með úr sögunni, enda ætti hún ekki heima á þessu svæði, þar sem land væri að aukast að verðmætum og mikil uppbygging í gangi. Sá staður væri barn síns tíma. Stórt sorpsamlag á suðvesturhorninu gæti allt eins verið í eigu fyrirtækis eins og sveitarfélaganna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×