Innlent

Búist við átakafundi hjá Framsókn

Búist er við átakafundi á fyrsta degi kjördæmisþings Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi, sem haldið er í Borgarnesi, þar sem fjöldi félaga hefur lýst andstöðu við þá meðferð sem Kristinn H. Gunnarsson alþingismaður fékk hjá þingflokknum þegar honum var vikið úr öllum nefndum. Þetta er fyrsta tækifærið sem trúnaðarmenn flokksins í kjördæminu hafa fengið til að ræða málið á vettvangi flokksins. Atvinnumál eru hins vegar opinbert meginþema kjördæmisþingsins og kynning á viðamikilli skýrslu nefndar Framsóknarflokksins um atvinnu- og byggðamál í Norðvesturkjördæmi. Ívar Jónsson prófessor er formaður nefndarinnar. Hann segir að ásamt greiningu á stöðu atvinnu- og byggðarmála í kjördæminu grundvallist hún á nýrri hugmyndafræði, þ.e. að þróa þekkingarhagkerfi í kjördæminu og efla hefðbundna atvinnuvegi. Ívar segir aðspurður þetta ekki vera enn eina álversskýrsluna þó ein tillaga fjalli um að næsta stóriðja verði staðsett í kjördæminu. Aðaláherslan er á að verkaskipting sé á milli landshluta. Á Vesturlandi sé sérhæfing á sviði almenns landbúnaðar, sérhæfing í sjávarútvegi á Vestfjörðum og á Norðurlandi vestra sé sérhæfing í hrossarækt og byggingariðnaði. Hugsunin er að á svæðunum þróist jafnframt stofnanaklasar með opinberum stofnunum og nýsköpunar- og frumkvöðlasetrum sem starfi í tengslum við tiltekinn atvinnuveg.  Áætlað er að kjördæmisþinginu í Borgarnesi ljúki síðdegis á morgun.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×