Innlent

Friður og framfarir í Eyjum

Sjálfstæðisflokkur og Vestmannaeyjalisti skrifuðu aðfaranótt laugardags undir yfirlýsingu um meirihlutasamstarf í bæjarstjórn Vestmannaeyja undir slagorðinu "friður og framfarir." Samstarfi V-lista og Framsóknarflokks var slitið á fundi bæjarráðs á föstudagskvöld. Ekki hefur endanlega verið gengið frá skipan í embætti, segir Lúðvík Bergvinsson, oddviti V-listans, en þau mál verða rædd eftir að samstarfsyfirlýsingin hefur verið lögð fyrir félagsfundi flokkanna tveggja. Sjálfstæðismenn samþykktu samstarfið á fundi í gær, en V-listinn hefur boðað félagsfund á mánudag. "Við þessar aðstæður taka menn hagsmuni sveitarfélagsins fram yfir gömul deilumál," sagði Arnar Sigurmundsson, oddviti sjálfstæðismanna. Lúðvík Bergvinsson tekur í sama streng og segir menn ætla að snúa bökum saman. "Og þegar menn gera það þýðir ekkert að vola það sem liðið er," sagði hann. Andrés Sigmundsson, fulltrúi Framsóknarflokksins, sem áður gekk úr samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn í andstöðu við stjórn Framsóknarfélagsins í Eyjum, er að vonum ósáttur og segir samstarfsslitin nú gerð "með upplognum tilefnum og með því að vega að mannorði annarra manna".



Fleiri fréttir

Sjá meira


×