Samkomulagt um verð fyrir Geest
Bakkavör hefur náð samkomulagi um verð í breska matvælafyrirtækinu Geest. Tilboð Bakkavarar mun hljóða upp á 655 pens á hlut, en samkvæmt því er markaðsvirði Geest um sextíu milljarðar króna. Á óvart kemur hversu hratt sú niðurstaða fæst, en það bendir til þess að góð samstaða hafi náðst milli Bakkavarar og stjórnar Geest. Með kaupum á Geest verður Bakkavör stærsti framleiðandi tilbúinnar ferskrar matvöru í Bretlandi, en breski markaðurinn er lengst kominn allra markaða heims í þessari grein. Hjá sameinuðu fyrirtæki myndu starfa 12.500 manns og gera má ráð fyrir að samanlögð velta næsta árs nemi um 150 milljörðum króna. Hlutfafar Geest fá einnig greidd sjö pens í arð, en Bakkavör fær fimmtungshlut af þeirri arðgreiðslu í samræmi við eignarhlut sinn í breska fyrirtækinu. Núverandi markaðsvirði Bakkavarar er um 40 milljarðar króna. Heildarlánafyrirgreiðsla vegna kaupanna mun nema milli 120 og 130 milljörðum króna og er það enn eitt metið sem viðskiptalífið slær á skömmum tíma. Erlendir bankar, meðal þeirra Bank of Scotland, Royal Bank of Scotland og Rabo, hafa lýst sig reiðubúna til að fjármagna kaupin. Stjórn Geest er samþykk verðtilboði Bakkavarar og segir Sir John Banham stjórnarformaður viðræðurnar hafa verið bæði faglegar og vinsamlegar. "Miðað við þetta verð gefum við Bakkavör heimild til áreiðanleikakönnunar og áframhaldandi viðræðna í kjölfarið." Ágúst Guðmundsson, stjórnarformaður Bakkavarar, segir þetta miklvægt skref. "Það sem skiptir mestu í svona viðræðum er verðið og svo aðgengi að rekstrartölum fyrirtækisins."