Erlent

Saumað að verðandi ráðherra

Erfiðar spurningar um grundvöll stefnu Bandaríkjastjórnar, einkum um meðferð stríðsfanga, verða lagðar fyrir dómsmálaráðherraefni Bandaríkjaforseta þegar hann kemur á fund þingnefndar í dag. Þingmenn vilja meðal annars vita hvernig hann gat komist að þeirri niðurstöðu að Genfarsáttmálarnir væru úreltir.  Alberto Gonzales hefur verið tilnefndur eftirmaður Johns Ashcrofts í dómsmálaráðuneytinu í Washington en Gonzales er sem stendur lagaráðgjafi Bush forseta og fyrrverandi dómari í Texas. Þeir Bush eru sagðir nánir og forsetinn hefur meðal annars sagt Gonzales bráðskarpan og réttsýnan. Hann er sagður ofarlega á lista þeirra sem Bush vildi skipa í hæstarétt Bandaríkjanna. Margir þingmenn sem og fulltrúar mannréttindasamtaka eru þó síður en svo hrifnir af Gonzales, ekki síst vegna skýrslu sem hann skrifaði fyrir Bandaríkjaforseta í byrjun ársins 2002. Þar sagði meðal annars að hlutar Genfarsáttmálanna væru úreltir og sérkennilegir. Þeim væri ekki ætlað að vernda al-Kaída liða eða talíbana sem er sú skilgreining sem notuð er yfir flesta fangana á Guantanamo-herstöðinni á Kúbu. Demókratar á þingi vilja vita hvernig Gonzales komst að þessari niðurstöður. Gagnrýnendur vilja fá svör við spurningum um stefnu Bandaríkjastjórnar hvað Genfarsáttmálana varðar, hvernig stóð á misnotkun fanga í Guantanamo-fangelsinu sem og í Abu Ghraib fangelsinu í Írak. Vitað er að Gonzales hyggst meðal annars svara því til að Bandaríkin hafi staðið frammi fyrir erfiðum spurningum eftir hryðjuverkaárásirnar 11. september 2001 en að Bush forseti hafi svarið að fylgja bæði bandarískum gildum og þeim reglum sem við ættu. Það hefði hann sjálfur gert og myndi gera í embætti dómsmálaráðherra, sem er talið öruggt að hann hljóti þrátt fyrir hugsanlega orrahríð þingmanna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×