Erlent

Staða Abbas fallvölt

Staða Mahmouds Abbas, nýkjörins forseta Palestínu, þykir fallvölt en hans bíður afar erfitt verkefni að halda aftur af hryðjuverkahópum svo hægt verði að ganga til friðarsamninga við Ísraelsmenn. Abbas er raunsær hófsemdarmaður og telja margir að kosning hans marki þáttaskil í friðarumleitunum fyrir botni Miðjarðarhafs. Abbas er mjög ólíkur forvera sínum, Jasser Arafat, en var næstráðandi hans í frelsissamtökum Palestínu. Abbas hefur margítrekað lýst andstöðu við að nota ofbeldi og hryðjuverk sem vopn í deilunni við Ísraela og talið vænlegast til árangurs að setjast að samningaborðinu. Abbas er hófsamari en mikill meirihluti Palestínumanna sem bendir til þess að hann fái ekki mikinn tíma til að sýna árangur. Þá spyrja menn sig hvort honum takist að hemja hryðjuverkaöflin í Palestínu. Herskáir hópar eins og Hamas-samtökin höfðu hvatt fólk til að hunsa kosningarnar. Þeir opna þó á samvinnu við Abbas. Kosning Abbas er talin marka tímamót hvað varðar friðarhorfur á svæðinu. John Kerry, þingmaður Badaríkjaþings, sagði að forsetinn hafi rætt við sig um mjög djarfar og mikilvægar áætlanir um að halda fram á veginn og binda enda á ofbeldið, sem og að leggja mikla áherslu á að breyta þeim öflum sem séu að verki í heimshlutanum. Viðbrögðin frá Ísraelsmönnum voru varfærin, en vongóð. Silvan Shalom, utanríkisráðherra Ísraels, sagði mikilvægt núna að nýr leiðtogi Palestínumanna taki ákvörðun um að rífa niður innviði hryðjuverkasamtakanna og að binda enda á undirróðursstarfsemina.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×