Sport

Spánverjar heimsmeistarar

Það er óhætt að segja að varnarleikurinn hafi verið víðsfjarri í úrslitaleik Spánverja og Króata á heimsmeistaramótinu í handbolta í Rades í Túnis í gær. Alls voru skoruð sjötíu og fjögur mörk í leiknum og hafa aldrei verið skoruð fleiri mörk í úrslitaleik í sögunni. Gamla metið var sextíu og fimm mörk í úrslitaleik Króata og Þjóðverja á heimsmeistaramótinu í Portúgal fyrir tveimur árum. Spænska liðið fór með sigur af hólmi í gær, 40-34, og vann sinn fyrsta heimsmeistaratitil í boltaíþrótt.Úrslitaleikurinn í ár var hins vegar aldrei spennandi því spænska liðið hafði tögl og haldir frá upphafi leiks. Fyrirfram var búist við því að heims- og Ólympíumeistarar Króatíu væru sigurstranglegri en þegar á hólminn var komið reyndist hungur spænsku leikmannanna mun meira. Spænska liðið var í fluggír í fyrri hálfleik og segja má að liðið hafi gert út um leikinn í fyrri hálfleik. Liðið var með átta marka forystu, 21-13, þegar flautað var til leikshlés. Leikurinn var jafn fyrstu tíu mínútunar en í stöðunni 6-6 tóku Spánverjar kipp og skoruðu níu mörk gegn tveimur á tíu mínútna kafla.Í síðari hálfleik var það sama uppi á teningnum. Spánverjar juku forystuna jafnt og þétt og voru komnir með þrettán marka forystu, 33-20, þegar síðari hálfleikur var hálfnaður. Króatarar náðu að klóra í bakkann á síðustu mínútum leiksins en lokasprettur þeirra kom alltof seint.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×