Sport

Ungmennalið Íslands vann Holland

Það var lítill glæsibragur á leik íslenska U-21 árs liðsins gegn Hollendingum í Laugardalshöllinni í gær. Á venjulegum degi ætti íslenska liðið að sigra það hollenska með 10-15 mörkum en slakur varnarleikur á köflum, og kæruleysi, gerði það að verkum að liðið sigraði aðeins með sex marka mun, 33-27, eftir að hafa leitt með sjö mörkum í hálfleik, 19-12. "Við eigum að pakka þessu liði saman en þetta var fyrsti leikurinn okkar í langan tíma og menn voru aðeins stressaðir og þurftu tíma til þess að pússa sig saman," sagði fyrirliði íslenska liðsins, Ásgeir Örn Hallgrímsson, en hann var í sérklassa á vellinum og íslenska liðið var slakt með hann utan vallar. "Nú erum við búnir að hrista af okkur skrekkinn og við lofum að spila betur á morgun," sagði Ásgeir en íslenska liðið mætir Úkraínu í dag. Mörk Íslands: Ásgeir Örn Hallgrímsson 10, Arnór Atlason 8/4, Andri Stefan 4, Ragnar Hjaltested 4, Ernir Hrafn Arnarsson 3, Einar Ingi Hrafnsson 1, Kári Kristjánsson 1, Árni Þór Sigtryggsson 1, Árni Björn Þórarinsson 1. Varin skot: Björgvin Páll Gústavsson 13/2, Pálmar Pétursson 9.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×