Sport

ÍBV á mikið inni

Önnur viðureign lokaúrslitanna í DHL-deildinni í handknattleik karla fer fram í Vestmannaeyjum í kvöld. Þar taka heimamenn í ÍBV á móti Haukum en fyrsta leik liðanna lauk með sigri Hauka, 31-30, eftir æsispennandi leik. Fréttablaðið fékk Óskar Bjarna Óskarsson, þjálfara Vals, til að spá í viðureign kvöldsins. "ÍBV tekur þetta á heimavelli með fjórum mörkum, 27-23," sagði Óskar Bjarni. "Ég vil meina að leikmenn ÍBV eigi meira inni frá laugardeginum og þess vegna tel ég að þeir klári þennan leik." Óskar Bjarni segir að fyrsti leikurinn hafi nokkurn við þróast eins og við var að búast og það hafi í raun komið lítið á óvart að Haukar skyldu vinna leikinn. "Hann var nánast eins og ég hafði hugsað hann og ég held að þetta verði hörkueinvígi sem gæti farið í 5 leiki. Eyjamenn þurfa að stoppa þessi hraðaupphlaup sem eru eitt skæðasta vopn Haukanna." Að mati Óskars Bjarna hefur Vignir Svavarsson farið mikinn í úrslitakeppninni og ekkert sem bendir til þess að sú sigling sé á enda. "Síðan eiga Haukarnir Ásgeir [Örn Hallgrímsson] alveg inni. Í liði Eyjamanna finn mér finnst menn á borð við Roland Eradze eiga mikið inni en liðið þarf reyndar að fá fleiri mörk úr hraðaupphlaupum að mínu mati. Eyjamenn vinna leikinn í kvöld og munurinn mun hlaupa á nokkrum mörkum," sagði Óskar Bjarni Óskarsson, þjálfari Vals.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×