Innlent

Þrettán látnir í ár

Banaslys varð þegar reykvískur karlmaður á fimmtugsaldri keyrði á steinstólpa brúar þar sem Reykjanesbraut liggur undir Miklubraut í gærmorgun. Var hann að keyra suður eftir Reykjanesbrautinni. Maðurinn var með meðvitund þegar lögreglan kom á vettvang en var úrskurðaður látinn skömmu eftir að hann hafði verið fluttur á Landspítalann háskólasjúkrahús í Fossvogi. Ekki er unnt að greina frá nafni hins látna að svo stöddu en lögregla rannsakar tildrög slyssins. Þetta er þrettánda banaslysið í umferðinni í ár og það þriðja nú um helgina. Unga manninum, sem slasaðist alvarlega í bílslysi í Öxnadal þar sem tveir létust, er enn haldið sofandi í öndunarvél og er líðan hans óbreytt að sögn vakthafandi læknis á gjörgæsludeild Landspítalans. Enn liggur ekkert fyrir um tildrög slyssins en lögreglan á Akureyri rannsakar málið. Maðurinn sem slasaðist alvarlega í bílveltu við bæinn Varmalæk í Borgarfirði er kominn af gjörgæsludeild og liggur nú á almennri deild.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×