Innlent

Rannsókn á Baugi í fullum gangi

Rannsókn Ríkislögreglustjóra á Baugi er í fullum gangi þessa dagana. Jón Gerald Sullenberger, sem kærði Baug á sínum tíma, var yfirheyrður vegna málsins í dag. Lögreglurannsókn á Baugi hófst fyrir þremur árum í framhaldi af kæru Jóns Geralds Sullenbergers, en meðal annars gerð var húsleit hjá fyrirtækinu vegna meints efnahagsbrots yfirmanna þess. Skattrannsóknarstjóri lauk í lok síðasta árs rannsókn á Baugi og var ákveðnum þáttum skattrannsóknarinnar vísað til Ríkislögreglustjóra vegna gruns um alvarleg brot. Jón Gerald Sullenberger, sem búsettur er í Miami í Bandaríkjunum, mætti snemma í morgun til yfirheyrslu hjá Ríkislögreglustjóra og yfirgaf hann ekki embættið fyrr en um klukkan þrjú í dag. Hann hefur aftur verið boðaður í yfirheyrslu klukkan níu í fyrramálið. Tryggvi Jónsson, fyrrverandi forstjóri Baugs og núverandi forstjóri Heklu, átti samkvæmt heimildum fréttastofu Stöðvar 2 að mæta til yfirheyrslu klukkan fjögur í dag. Hann kom akandi til ríkislögreglustjóra um það leyti en af einhverjum ástæðum ákvað hann strax frá að hverfa í stað þess að ganga á fund ríkislögreglustjóra.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×