Sport

Líkur Gylfa aukast hjá Leeds

Helsti keppinautur landsliðsmannsins Gylfa Einarssonar um stöðu miðjumanns hjá enska 1. deildarliðinu Leeds Utd, hinn norski Eirik Bakke er að öllum líkindum á förum til enska úrvalsdeildarliðsins Aston Villa. Þetta sagði Gylfi í viðtali í Fótboltavikunni á Talstöðinni í dag en Bakke hélt Gylfa á varamannabekknum þar til hann meiddist á dögunum og hefur Gylfi verið í byrjunarliðinu hjá Leeds í síðustu 3 leikjum. "Ég held ég opinberi það bara hérna í þessu viðtali að Bakke er líklega að fara á lánssamning til Aston Villa á morgun. Hann er launahæsti leikmaðurinn í Leeds-liðinu enda á sama samningi og hann var þegar Leeds var í Meistaradeildinni." sagði Gylfi í viðtali við Hans Bjarnason í útvarpsþættinum en félagið hefur einmitt átt í talsverðum fjárhagsvandræðum og þarf að halda launakostnaði niðri. Þetta eykur að sjálfsögðu líkur Gylfa á að spila meira en út leit í upphafi. Gylfi hefur eins og áður segir verið í byrjunarliði Leeds í síðustu þremur leikjum sem allir hafa unnist. Gylfi hefur lagt upp eitt mark í þessum leikjum en það var í 2-0 sigri gegn Wolves í deldinni. Gylfi er nú staddur á landinu þar sem hann mun leika með íslenska landsliðinu gegn Króötum á Laugardalsvelli á laugardaginn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×