Sport

Blatter myndi fagna boði Englands

Joseph S. Blatter, formaður alþjóðaknattspyrnusambandins, FIFA, segir að hann myndi fagna boði Englands til að halda heimsmeistarakeppnina árið 2018. "Þetta er vagga fótboltans. Ég myndi segja já og þeir ættu að leggja fram boð," sagði Blatter. Lundúnir voru um daginn valdar til að vera vettvangur Ólympíuleikanna árið 2012 eins og kunnugt er. Heimsmeistarakeppnin í knattspyrnu verður haldin í Þýskalandi á næsta ári og svo í Suður-Afríku að fjórum árum liðnum. Ekki hefur verið tilkynnt hvar hún verði haldin árið 2014 en vegna stefnu FIFA um að deila keppnum milli heimsálfa þykir næsta víst að hún verði haldin í Suður-Ameríku og nánast þykir öruggt að það verði Brasilía sem verði þá fyrir valinu. Eftir það ætti keppnin að verða haldin í Evrópu að nýju og kemur England þar vissulega sterklega til greina en síðast var HM haldið þar árið 1966. Blatter er einnig meðlimur í alþjóða ólympíunefndinni og kaus Lundúnir þegar ákveða ætti hvar ætti að halda Ólympíuleikana árið 2012.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×