Sport

Vieira ber virðingu fyrir Keane

Franski landsliðsmaðurinn Patrick Vieira, sem leikur með Juventus á Ítalíu, sagði í viðtali í gærkvöldi að hann bæri mikla virðingu fyrir Roy Keane, fyrirliða írska landsliðsins. Þjóðirnar mætast í undankeppni HM í dag og þar rifja þeir félagar upp gamla takta frá því þeir mættust reglulega í leikjum Arsenal og Manchester United. "Við tókum margar góðar rimmur á knattspyrnuvellinum í gegn um árin og oft var heitt í kolunum," sagði Vieira, en þeir áttu í hörðum orðaskiptum í göngunum fyrir leik Arsenal og Manchester United á síðustu leiktíð, þannig að litlu munaði að uppúr syði. "Ég ber mikla virðingu fyrir Keane sem leikmanni og þó við höfum tekist hart á inni á vellinum í gegn um tíðina, tókumst við alltaf í hendur að leik loknum," sagði Vieira, sem hefur misst fyrirliðabandið til Zinedine Zidane eftir að sá síðarnefndi ákvað að snúa aftur með franska landsliðinu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×